„Það er allt stopp hérna og þeir sem vissu ekki af þessu og ætluðu að keyra hér í gegn eru bara stopp og sameinast með okkur,“ segir Berglind Häsler, íbúi á svæðinu og einn skipuleggjandi aðgerðanna.
Berglind reiknar með að um 100 manns séu á staðnum á um sextíu bílum. Þá segir hún ljóst að fólk allstaðar af Austurlandi sé mætt til þess að styðja aðgerðirnar í verki.

Berglind segir að íbúar svæðisins séu orðnir langþreyttir á aðgerðaleysi stjórnvalda og að nú sé kominn tími aðgerða, því hafi verið ákveðið að loka veginum í von um að fanga athygli stjórnvalda.
„Við erum eitt ríkasta land í heimi og stjórnmálamenn þreyttast nú ekki á að minnast á það en um leið og á að byggja eitthvað upp hérna þá kemur einhver allt annar tónn. Það virðist ekki vera neinn vilji til þess að breyta þessu,“ segir Berglind.
Undanfarin ár hafa fréttir reglulega verið sagðar af vandræðum sem skapast hafa vegna vegarins Á síðasta ári slapp japanskur ferðamaður með skrekkinn þegar bíll hans valt í botni Berufjarðar. Betur fór á en horfðist en bíll ferðamannsins skemmdist töluvert.
Berglind segir að veginum verði lokaður eitthvað frameftir degi. Aðspurð að því hvort lögreglan hafi reynt að hafa afskipti af lokuninni segir Berglind svo ekki vera, hún hafi ekki látið sjá sig.
„Ég gæti best trúað því að þeir styðji okkur í þessu.“
