Enski boltinn

Gömlu Liverpool-stjórarnir að gera góða hluti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael Benítez og Brendan Rodgers.
Rafael Benítez og Brendan Rodgers. Mynd/Samsett/Getty
Rafael Benítez og Brendan Rodgers eru báðir fyrrum knattspyrnustjórar Liverpool sem eru í toppmálum með sitt lið í dag.

Aðeins tveir þjálfarar hafa komið Liverpool inn á topp tvö á síðustu fjórtán tímabilum. Þeim tókst ekki að gera liðið að meisturum en eru á góðri leið með að vinna sínar deildir í dag.

Rafael Benítez stýrði liði Newcastle til 3-1 sigurs á Huddersfield Town í ensku b-deildinni í gær og liðið hefur nú fimm stiga forskot á Brighton & Hove Albion á toppi deildarinnar. Tvö efstu liðin fara beint upp og Newcastle hefur ellefu stiga forskot á lið Huddersfield sem er í þriðja sætinu.

Það virðist því fátt koma í veg fyrir að Newcastle endurheimti sæti sitt í ensku úrvalsdeildinni en liðið hefur unnið góða útisigra á liðunum í öðru og þriðja sæti á síðustu fjórum dögum, fyrst 2-1 sigur á Brighton á þriðjudagskvöldið og svo 3-1 sigur á Huddersfield í gær.

Rafael Benítez var knattspyrnustjóri Liverpool frá júní 2004 til júní 2010 og liðið vann fjóra titla undir hans stjórn. Liverpool vann 196 af 350 leikjum sínum undir stjórn Benítez eða 56 prósent leikjanna.

Brendan Rodgers var rekinn sem knattspyrnustjóri Liverpool í október 2015 en tók við liði Celtic í sumar. Celtic er taplaust og hefur unnið 26 af 27 deildarleikjum undir hans stjórn en liðið hans er nú með 27 stiga forskot á toppi skoski úrvalsdeildarinnar.

Celtic sem er 57 mörk í plús í markatölu (73-16) hefur unnið 22 síðustu deildarleiki sína eða alla leiki í skosku úrvalsdeildinni síðan liðið gerði 2-2 jafntefli við Inverness CT 18. september. Celtic vann Inverness 4-0 á sama stað í vikunni sem leið.

Rodgers gerði Celtic líka að skoskum deildabikarmeisturum í lok nóvember eftir 3-0 sigur á Aberdeen í úrslitaleik á Hampden Park í Glasgow.

Brendan Rodgers var knattspyrnustjóri Liverpool frá júní 2012 til október 2015 og liðið varð í 2. sæti í ensku úrvalsdeildinni undir hans stjórn tímabilið 2013-14. Liverpool vann 83 af 166 leikjum sínum undir stjórn Rodgers eða 50 prósent leikjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×