Erlent

Ofbeldisverkin í Téténíu: Klerkar hóta „maklegum málagjöldum“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Andlegur leiðtogi Téténíu, Salah-haji Mezhiev, hótaði blaðamönnum refsingu. Hann sést hér virða fyrir sér minnismerki í Grozny, höfuðborg Téténíu.
Andlegur leiðtogi Téténíu, Salah-haji Mezhiev, hótaði blaðamönnum refsingu. Hann sést hér virða fyrir sér minnismerki í Grozny, höfuðborg Téténíu. Vísir/AFP
Talsmenn rússneska fjölmiðilsins Novaya Gazeta segjast uggandi yfir ákalli téténskra múslima um „makleg málagjöld“ eftir að blaðið flutti fréttir af pyntingum á samkynhneigðum mönnum í Téténíu. BBC greinir frá.

Múslimskir klerkar hittust í byrjun apríl, tveimur dögum eftir að fréttirnar birtust, og ályktuðu að fréttaflutningurinn hefði verið vanvirðing við trú þeirra og heiður karlmanna í Téténíu.

„Upphafsmennirnir munu hljóta makleg málagjöld, hvar og hverjir sem þeir eru,“ sagði í ályktuninni og áttu klerkarnir þar við blaðamennina sem fluttu fréttir af málinu. Þetta staðfesti andlegur leiðtogi Téténa, Salah-haji Mezhiev.

„Allah mun refsa þeim sem rægja téténsku þjóðina og presta téténska lýðveldisins,“ bætti hann við.

Ritstjóri blaðsins ætlar að halda ótrauður áfram

„Við hvetjum rússnesk yfirvöld að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir gjörðir, sem miða að því að egna hatur og fjandskap í garð blaðamanna,“ sagði í yfirlýsingu frá Novaya Gazeta. Þá var einnig haft eftir talsmönnum blaðsins að ályktun klerkanna væri til jafns við „hefndaraðgerð gegn blaðamannastéttinni.“

Ritstjóri Novaya Gazeta, Dmitry Muratov, sagði að blaðamenn hans myndu halda áfram að rannsaka mannréttindabrotin í Téténíu.

„Við móðguðum hvorki, né höfðum í hyggju að móðga, téténsku þjóðina,“ skrifaði hann.

Téténar hafa verið nefndir í tengslum við tvö morð á blaðamönnum Novaya Gazeta, Önnu Politkovskaya og Nataliu Estemirova, sem rannsökuðu glæpi á svæðinu.

Talið er að yfir hundrað manns hafi verið í haldi í Téténíu á grundvelli kynhneigðar sinnar og að minnsta kosti þrír dáið í ofsóknunum. Fordómar í garð samkynhneigðra eru áberandi í téténsku samfélagi en talsmaður forseta Téténíu, Ramzan Kadyrov, hefur hafnað því alfarið að samkynhneigða sé yfir höfuð að finna í héraðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×