„Það má segja að það sé skiljanlegt að fyrirtæki reyni að bregðast við erfiðri húsnæðisstöðu og virðingarvert útaf fyrir sig að þau skili láta sig það varða. En ég myndi kannski almennt telja að þetta væri ekki endilega heppilegasta leiðin að starfsfólk sé háð atvinnurekandanum um húsnæði,“ segir Henný. Það geti komið fólki í erfiða stöðu og því heillavænlegast að stjórnvöld tækju þessi mál í sínar hendur.

„Auðvitað getur sú staða komið upp. Þú ert bæði orðinn háður atvinnurekandanum um afkomu og húsnæði. Þannig að auðvitað getur þetta sett starfsfólk í erfiða stöðu, alveg klárlega. Almennt er þetta ekki heppilegasta leiðin þó maður skilji vel að menn skuli reyna að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin núna og er erfið fyrir marga,“ segir hún.
Þá segir hún mál sem þessi reglulega koma á borð sambandsins.
„Við vitum til þess að okkar stéttarfélög fái svona mál inn á borð til sín. Við þekkjum það í gegnum tíðina að atvinnurekendur útvegi starfsfólki húsnæði en frekar hefur það verið hjá starfsfólki í tímabundnum störfum. Og auðvitað hefur þetta skapað vanda og þetta eru mál sem reglulega koma inn á borð til okkar stéttarfélaga og þau munu að sjálfsögðu fylgjast með þessu áfram.“