Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, segir Guðjón Ármannsson, lögfræðing lögmannsstofunnar LEX, hafa verið valinn til að verja íslenska ríkið í Landsréttarmáli Ástráðs Haraldssonar vegna þess að hann gæti rekið málið á skömmum tíma.
Í skriflegu svari til fréttastofu segir hún: „Í kjölfar þess að ríkislögmaður upplýsti um tengsl við stefnanda fól ríkislögmaður málið Guðjóni Ármannssyni hrl. Guðjón er fær lögmaður og reyndur á þessu sviði og í stakk búinn til að reka málið á þeim skamma tíma sem flýtimeðferðin, sem málið var fellt í fyrir dómi, kveður á um.“
Hún svarar því ekki hvers vegna lögmannsstofan LEX varð sérstaklega fyrir valinu, einungis hvers vegna Guðjón var sérstaklega valinn.
Sigríður starfaði sjálf hjá lögmannsstofunni LEX árin 2007 til 2015 er hún tók sæti á Alþingi.
Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær er hefð fyrir að ríkislögmaður reki mál sem þessi fyrir hönd ríkisins. Í þessu tilfelli er ríkislögmaður þó vanhæfur sökum tengsla við kærandann og þess að starfsmenn innan embættisins voru í hópi umsækjenda um stöðu dómara við Landsrétt.
Innlent
Segir ríkislögmann hafa falið Guðjóni málið
Tengdar fréttir
Ráðherra felur LEX málið
Sigríður starfaði hjá lögmannsstofunni LEX sem héraðsdómslögmaður árin 2007 til 2015.