Erlent

Neita að svara spurningum um mál Kushner

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Jared Kushner er hér hægra megin við Donald Trump, tengdapabba sinn og forseta Bandaríkjanna.
Jared Kushner er hér hægra megin við Donald Trump, tengdapabba sinn og forseta Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Ráðgjafar og starfsmenn í starfsteymi Donald Trump, Bandaríkjaforseta, neita að svara spurningum fjölmiðla um mál Jared Kushner, tengdasonar og eins helsta ráðgjafa Donald Trump en greint hefur verið frá því að hann hafi rætt við Rússa um að koma upp leynilegri samskiptalínu milli stjórnvalda ríkjanna tveggja. BBC greinir frá. 

Kushner er sagður hafa átt fund með Sergey I. Kislyak, sendiherra Rússa í Bandaríkjunum, í Trump turninum í New York í byrjun desember síðastliðnum þar sem umrædd samskiptalína var rædd. Talið er að samskiptalínan sem varð aldrei að veruleika hafi verið hugmynd Kushner.

Ef satt reynist er málið sérstaklega alvarlegt þar sem að Donald Trump var á þessum tíma ekki orðinn forseti Bandaríkjanna og Kushner því ekki orðinn löggildur embættismaður og talsmaður Bandaríkjanna en ólöglegt er fyrir óbreytta borgara að fara með utanríkismál landsins.

Sjá einnig: Vildu koma á leynilegri samskiptalínu á milli Bandaríkjanna og Rússlands

Ráðgjafarnir HR McMaster og Gary Cohn eru nú staddir á Ítalíu ásamt Donald Trump, þar sem hann fundaði með leiðtogum G7 ríkjanna í dag og voru þeir spurðir út í málið á blaðamannafundi.

Við það tilefni neitaði Cohn, sem er efnahagsráðgjafi í ríkisstjórn Trump, með öllu að tjá sig um málið.

Þá vildi McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi, að tjá sig um sérstök atriði í máli Kushner en segir að málið valdi honum ekki áhyggjum sé það á rökum reist.

Hann segir slíkar samskiptalínur séu með öllu eðlilegar í samskiptum ríkja og þá sérstaklega í samskiptum stærri ríkja líkt og Bandaríkjanna og Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×