Lífið

Byrjar daginn á meinhollu matcha-tei

Guðný Hrönn skrifar
Halldór Guðmundsson er aðdáandi matcha-tes.
Halldór Guðmundsson er aðdáandi matcha-tes. Vísir/GVA
Halldór Guðmundsson, framkvæmdastjóri kaffihúsa Te & kaffi, byrjar flesta daga á að drekka matcha-­te. Halldór segir teið gefa kraft og ýta undir einbeitingu.

Halldór byrjaði að drekka matcha-te fyrir um sex árum. „Fyrst kunni ég ekki alveg að meta það en þegar ég lærði að laga það rétt varð það mjög gott. Núna reyni ég að byrja daginn á einum bolla af matcha, það kemur sér vel þegar ég stunda jóga og hugleiðslu á morgnana. Matcha gefur manni aukinn kraft og skerpir hugann.

Ef maður veit hvað maður er að gera er mjög lítið vesen að laga það,“ segir Halldór sem mælir með að nota vigt og hitamæli þegar matcha-­teið er útbúið.“ Það er nefnilega mikilvægt að vatnið sé ekki of heitt, það má ekki vera heitara en 80°C. Einnig er mikilvægt að bursta teið rétt svo það freyði vel.“

„Matcha er mjög ríkt af and­oxunar­efnum og gefur manni aukaorku og skarpan huga,“ segir Halldór meðal annars aðspurður af hverju hann drekki matcha. „Matcha er mjög hollur og virðulegur drykkur en það hefur verið drukkið í yfir 800 ár. Hér áður fyrr voru einungis fáir útvaldir sem áttu kost á að drekka matcha. Teið er unnið úr einu besta afbrigði af grænu te sem er fáanlegt í Japan og það er malað á ákveðinn hátt svo að þegar teið er drukkið er allt teið nýtt,“ útskýrir Halldór sem hefur undanfarið tekið eftir auknum vinsælum matcha-tesins.

Það er ekkert flókið að útbúa matcha te að sögn Halldórs.Vísir/GVA
Halldór segir matcha-te vera góðan kost fyrir þá sem eru að taka sig á í Meistaramánuði og vilja t.d. minnka gosdrykkju. „Já, klárlega, ef fólk vill bæta hollum og góðum drykk við næringuna þá mæli ég hiklaust með mathca. Einnig mæli ég með því ef fólk stundar hugleiðslu því matcha hjálpar til við að auka einbeitingu.“

Eins og áður sagði reynir Halldór að byrja hvern dag á bolla af matcha en eftir það tekur kaffið við. „Ég vinn við að smakka kaffi svo suma daga eru ansi margir kaffibollar drukknir en ætli ég drekki ekki fimm til sex bolla af kaffi yfir daginn.“

Fyrir þá sem hafa aldrei vanið sig á að drekka te mælir Halldór með að kynna sér hvernig á að laga ferskt te og draga fram það besta úr hráefninu. „Það er allt of algengt að te sé rangt lagað – vitlaust hitastig á vatninu, of mikið magn af telaufum á móti vatni eða að teið er látið trekkja of lengi skemmir fyrir,“ segir Halldór sem mælir með að fólk prófi sig bara áfram til að finna te við sitt hæfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.