Erlent

Allur herinn á eftir lögreglumanninum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Oscar Peréz hafði starfað hjá lögreglunni í 15 ár.
Oscar Peréz hafði starfað hjá lögreglunni í 15 ár.
Lögreglumaðurinn sem talinn er bera ábyrgð á sprengjuárásinni í Venesúela um síðastliðna nótt er enn ófundinn. Nicolas Maduro, forseti landsins, hefur virkjað allan sinn her vegna árásarinnar og hefur lýst því yfir að um hafi verið að ræða hryðjuverkaárás.

Lögreglumaðurinn, Oscar Peréz, sendi frá sér yfirlýsingu á Instagram í kjölfar árásarinnar þar sem hann viðurkenndi sök. Hann fordæmdi ríkisstjórn landsins á sama tíma og hvatti fólk til að rísa upp gegn kúgurum, líkt og hann orðaði það.

Yfirlýsing Peréz var í fimm pörtum, en hér að neðan má sjá fyrsta partinn. Hina fjóra er að finna hér.

„350 frelsi“

Peréz er sakaður um að hafa stolið lögregluþyrlu, flogið henni að innanríkisráðuneytinu og skotið fimmtán skotum. Í framhaldinu flaug hann yfir Hæstarétt landsins og varpaði fjórum handsprengjum. Engan sakaði.

Aftan á þyrlunni hékk borði með áletruninni „350 frelsi“ og er vísun í ákvæði stjórnarskrárinnar sem andstæðingar ríkisstjórnarinnar segja staðfestingu á því að ríkisstjórnin sé ólögmæt.

Þyrlan var í eigu rannsóknarlögreglunnar, og var merkt CICPC, en Peréz hafði starfað hjá lögreglunni í fimmtán ár.

Þjóðin að sligast

Mótmælaalda hefur geisað í Venesúela um árabil og virðist ekkert lát vera á henni, en þess er krafist að Nicolas Maduro fari frá völdum. Hann er sakaður um einræðistilburði og að hafa valdið bæði pólitískri og efnahagslegri kreppu í landinu.

Venesúela var ríkasta land í Rómönsku-Ameríku enda eru olíubirgðir landsins miklar auk þess sem það hafði miklar tekjur af útflutningi matvæla. Núna hins vegar er þjóðarbúið á barmi gjaldþrots og hvergi annars staðar í heiminum er að finna meiri verðbólgu, en talið er að hún muni ná 720 prósentum á þessu ári. Þá hefur innflutningur á matvöru dregist saman um 70 prósent og sömuleiðis hefur efnahagurinn dregist um 27 prósent.

Fáir ná endum saman og er skortur á allri nauðsynjavöru. Matur og aðrar nauðsynjar gengur því kaupum og sölum á svörtum markaði og sökum hás verðlags leitar fólk í auknum mæli að mat í ruslafötum. Má í því samhengi nefna nýlega rannsókn sem leiddi það í ljós að þrír af hverjum fjórum íbúum landsins segjast hafa misst nokkur kíló á síðasta ári vegna hungurs, og þá segjast 32 prósent landsmanna borða tvær eða færri máltíðir á dag vegna peningaskorts.

Landsmenn misstu að meðaltali tæp níu kíló á síðasta ári, samkvæmt rannsókninni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×