Pétur Gunnlaugsson, dagskrárgerðarmaður á Útvarpi Sögu og lögfræðingur, fer fram á afsökunarbeiðni frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eftir að ákæru á hendur honum fyrir hatursorðræðu var vísað frá héraðsdómi í morgun. Pétur segir í samtali við Vísi að málið hafi bæði skaðað hann persónulega en sömuleiðis útvarpsstjórann Arnþrúði Karlsdóttur og útvarpsstöðina sjálfa.
„Niðurstaðan kom mér ekkert á óvart,“ segir Pétur. „Í fyrsta lagi tel ég að aldrei hefði átt að gefa út ákæru á hendur mér í þessu máli. Það var búið að vísa þessu frá. Lögreglan gerði það strax en ríkissaksóknari vildi að málið héldi áfram,“ segir Pétur. Svo hafi dómari komist að sinni afdráttarlausu niðurstöðu í dómssal í morgun.
Galin ákæra
Málið má rekja til kæru Samtakanna ’78 vegna ummæla sem féllu í útvarpsþættinum Línan er laus á Útvarpi Sögu. Þar var kennsluhald í grunnskólum í Hafnarfirði til umræðu en sitt sýndist hverjum um hinsegin fræðslu í skólum bæjarins frá sex ára aldri.
„Margir gerðu athugasemdir við það,“ segir Pétur. Fullkomlega eðlilegt sé að skattgreiðendur hafi skoðanir á því sem gert sé í grunnskólum sem reknir séu af sveitarfélögum auk þess sem skólaskylda sé í landinu. Hann hafi hlustað á skoðanir fólks á málinu.
„Svo er ég ákærður fyrir það. Allir sanngjarnir menn hljóta að sjá að það er galið að ég sé ákærður fyrir að hlusta á hlustendur.“
Dómari í málinu vísaði því frá meðal annars þar sem ekkert er minnst á hatursorðræðu eða útbreiðslu haturs í þeirri grein laganna sem ákært var fyrir brot á. Taldi dómari verulegan galla á ákærunni að því leyti. Pétur segir það munu koma betur í ljós síðar hvort hann og/eða Útvarp Saga muni leita réttar síns vegna málsins.
Pétur segir málið hápólitískt.
Hefur stórskaðað Útvarp Sögu
„Þarna er lögreglustjórinn í Reykjavík að taka þátt í því að ákæra í pólitísku skyni,“ segir Pétur. Hann sé hissa á því að fleiri hafi ekki risið upp til varnar tjáningarfrelsinu hér á landi. Hann minnir á að gagnrýnin hafi ekki verið á samkynhneigða heldur samtök sem berjist fyrir réttindum samkynhneigðra, þ.e. Samtökunum ’78.
„Þetta er búið að stórskaða okkur, bæði mig, Útvarp Sögu og útvarpsstjórann,“ segir Pétur og á við Arnþrúði Karlsdóttur. „Þetta er grafalvarlegt mál og hefur verið notað gegn okkur í öðrum dómsmálum. Þar hefur verið sagt að ég sé nánast ærulaus þar sem ég hef verið ákærður fyrir hatursorðræðu,“ segir Pétur sem er fyrsti einstaklingurinn á Íslandi sem hefur verið ákærður fyrir hatursorðræðu.
Hann telur óumdeilt að tilgangurinn með ákærunni hafi verið að fara gegn Útvarpi Sögu.
„Ég tel eðlilegt að lögreglustjóri biðjist afsökunar gagnvart mér.“

