Enski boltinn

West Ham mjög óánægt með framkomu Payets sem er kominn aftur til Marseille

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dmitri Payet komst frá West Ham.
Dmitri Payet komst frá West Ham. vísir/getty
Dmitri Payet er aftur orðinn leikmaður Marseille í Frakklandi en West Ham tók loks tilboði franska félagsins upp á 25 milljónir punda og var gengið frá félagaskiptum í gærkvöldi.

Payet er búinn að vera í verkfalli undanfarnar vikur eftir að Slaven Bilic, knattspyrnustjóri West Ham, neitaði að selja hann en franski miðjumaðurinn fékk langan og flottan samning á síðasta ári.

Payet kom til West Ham frá Marseille fyrir tæpum tveimur árum eftir að verða stoðsendingahæsti leikmaðurinn í frönsku 1. deildinni. Nú er nýr eigandi tekinn við félaginu sem vill gera það að stórveldi í Frakklandi og Payet vill taka þátt í því auk þess sem hann segir fjölskyldu sína sakna Frakklands.

West Ham hafði í raun engan áhuga á því að selja leikmanninn sem er búinn að skrifa undir fjögurra og hálfs árs samning við Marseille. David Sullivan, annar tveggja eigenda West Ham, vildi gera fordæmi úr Payet og láta hann dúsa í frystikistunni hjá félaginu þar til samningi hans væri lokið.

Í yfirlýsingu frá West Ham segir: „Félagið vill koma því á framfæri að það er mjög óánægt með að Dmitri Payet sýndi því ekki sömu virðingu og honum var sýnd, bæði af hálfu félagsins og stuðningsmönnum. Við viljum að það komi skýrt fram að við þurftum ekki að selja Payet heldur var það á endanum ósk stjórans til að sameina leikmannahópinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×