Enski boltinn

Utandeildarlið Lincoln komið í 16-liða úrslitin enska bikarsins | Dramatík á White Hart Lane

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Leikmenn Lincoln fagna er leikmenn Brighton ganga niðurlútir af velli.
Leikmenn Lincoln fagna er leikmenn Brighton ganga niðurlútir af velli. Vísir/getty
Utandeildarlið Lincoln City gerði sér lítið fyrir og sló út Brighton á heimavelli í 32-liða úrslitum enska bikarsins í dag en þetta í fjórða skiptið sem félagið kemst alla þessa leið í þessari sögufrægu bikarkeppni.

Áttu eflaust fáir von á því að Lincoln sem berst um efstu sæti National League, fimmtu sterkustu deildar Englands, ættu roð í Brighton sem berst um efstu sæti Championship deildarinnar og sæti í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

Brighton komst yfir snemma leiks en tvö mörk á fimm mínútna kafla í byrjun seinni hálfleiks þýddi að Lincoln leiddi þegar skammt var til leiksloka. Var það svo Theo Robinson sem gulltryggði sigurinn með þriðja marki Lincoln á 86. mínútu.

Tottenham lenti í kröppum dansi á heimavelli gegn Wycombe Wanderes sem leika í 4. deild ensku deildarkeppninnar en Wycombe leiddi 2-0 í hálfleik og komst aftur 3-2 yfir skömmu fyrir leikslok.

Gestirnir leiddu 2-0 í hálfleik og neyddist Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham að kalla á stjörnurnar til að koma sínum mönnum aftur inn í leikinn.

Tvö mörk á fimm mínútna millibili þýddi að allt var jafnt en Wycombe komst aftur yfir með marki frá varamanninum Garry Thompson á 83. mínútu.

Tottenham tókst þó að stela sigrinum með tveimur mörkum undir lok leiksins, Dele Alli jafnaði metin á 89. mínútu og á 96. mínútu skoraði Son Heung-Min annað mark sitt í leiknum og sigurmark Tottenham.

Wycombe fékk rétt að taka miðju áður en leikurinn var flautaður af og rétt slapp Tottenham því með skrekkinn á heimavelli.

Jóhann Berg Guðmundsson lék allan leikinn í 2-0 sigri gegn Bristol City en félagi hans úr landsliðinu, Hörður Björgvin Magnússon, kom ekkert við sögu hjá Bristol. Jóhann lagði upp annað mark Burnley í leiknum fyrir Steven Defour.

Þá vann Oxford United óvæntan sigur á Newcastle á heimavelli 3-0 en Dýrlingarnir í Southampton taka á móti Arsenal í lokaleik dagsins nú klukkan 17:30.

Úrslit dagsins:

Blackburn 2-0 Blackpool

Burnley 2-0 Bristol City

Middlesbrough 1-0 Accrington Stanley

Oxford United 3-0 Newcastle United

Rochdale 0-4 Huddersfield

Tottenham Hotspur 4-3 Wycombe Wanderes




Fleiri fréttir

Sjá meira


×