Enski boltinn

Jón Daði og félagar slógu Liverpool út á Anfield

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Weimann fagnar marki sínu með Klavan í bakgrunni.
Weimann fagnar marki sínu með Klavan í bakgrunni. vísir/getty
Jón Daði Böðvarsson og félagar í Wolves gerðu sér lítið fyrir og slógu út úrvalsdeildarlið Liverpool í hádegisleik enska bikarsins en þetta var þriðja tap Liverpool á Anfield í röð.

Jurgen Klopp tefldi fram stjörnum Liverpool í bland við yngri leikmenn en Jón Daði þurfti að sætta sig við sæti á varamannabekknum í upphafi leiks.

Miðvörðurinn Richard Stearman kom Wolves yfir strax á fyrstu mínútu er hann skallaði aukaspyrnu í netið en Stearman virtist vera rangstæður þegar markið var skoðað í endursýningu.

Liverpool var með boltann stærstan hluta leiksins en það voru Úlfarnir sem bættu við öðrum marki í fyrri hálfleik. Var þar að verki Andreas Weimann eftir góðan undirbúning Helder Costa.

Liverpool var með boltann nánast allan seinni hálfleikinn en heimamenn áttu í miklum erfiðleikum með að skapa sér opin marktækifæri. Divock Origi minnkaði muninn á 86. mínútu en lengra komust þeir rauðklæddu ekki.

Jón Daði sem kom inn af bekknum á 71. mínútu var nálægt því að gulltryggja sigurinn undir lok venjulegs leiktíma með glæsilegu einstaklingsframtaki en Lucas Leiva bjargaði á línu og hélt lífi í vonum Liverpool.

Fór það svo að Úlfarnir fögnuðu sigri á Anfield en þetta var þriðja tap Liverpool á Anfield á einni viku en fram að leiknum gegn Swansea um síðustu helgi hafði Liverpool ekki tapað á heimavelli í rúmlega ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×