Innlent

Lögregla birtir myndir af apóteksræningjanum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Myndir úr öryggismyndavélum.
Myndir úr öryggismyndavélum. Vísir
Lögregla leitar enn mannsins sem framdi rán í Apótekaranum á Bíldshöfða í Reykjavík skömmu fyrir klukkan 10 í gærmorgun. Maðurinn sem huldi andlit sitt með klút, var vopnaður hnífi.

Í samtali við Vísi segir Valgarður Valgarðsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni að verið sé að vinna úr upplýsingum en maðurinn sé enn ófundinn. Lögregla hefur birt myndir af manninum sem sjá má hér fyrir ofan.

Maðurinn huldi andlit sitt með hvítum Adidas bol var vopnaður hnífi og tókst að komast undan með lyf. Engan sakaði en starfsfólkinu var brugðið og var áfallateymi Rauða krossins var kallað út vegna málsins.

Vitni sem sátu og drukku kaffi og borðuðu bakkelsi í Bakarameistaranum á meðan ránið átti sér stað kom á óvart hvað ránið fór í raun framhjá þeim. Þeir smelltu þó af mynd þegar hann gekk hröðum skrefum út.

Ræninginn er talin vera grannvaxinn, klæddur í rauða peysu, gallabuxur og með húfu. Hann var með svartan bakpoka meðferðis. Þeir sem geta veitt upplýsingar um málið, eða telja sig hafa séð til ferða mannsins eru beðnir um að senda einkaskilaboð á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða senda tölvupóst í netfangið as@lrh.is. Ef einhverjir verða mannsins varir skal hringja strax í lögreglu í síma 112.

Vitni horfa á ræningjann ganga út úr apótekinu.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×