Erlent

Le Monde: Liðsmenn ETA reiðubúnir að leggja niður vopn

Atli Ísleifsson skrifar
Franskur lögreglumaður nærri húsi þar sem æðsti leiðtogi ETA, Mikel Irastorza, fannst í franska bænum Ascain í Pýreneafjöllum í nóvember síðastliðinn.
Franskur lögreglumaður nærri húsi þar sem æðsti leiðtogi ETA, Mikel Irastorza, fannst í franska bænum Ascain í Pýreneafjöllum í nóvember síðastliðinn. Vísir/AFP
Baskneska aðskilnaðarhreyfingin ETA er reiðubúin að leggja niður vopn. Franska blaðið Le Monde hefur eftir heimildarmönnum sínum að uppreisnarhópurinn muni greina frá því síðar í dag að hann muni koma síðustu vopnum sínum í hendur spænskra yfirvalda þann 8. apríl.

Spænska fréttastofan Europa Press hefur einnig eftir sínum heimildarmönnum að þetta standi til, en innanríkisráðuneyti Spánar hefur enn ekki tjáð sig um upplýsingarnar.

ETA hefur barist fyrir sjálfstæði Baskalands um áratuga skeið, en lýsti yfir einhliða vopnahléi árið 2011. Yfirvöld á Spáni og Frakklandi höfðu þá lengi barist gegn og þrýst á samtökin að leggja niður vopn.

Hreyfingin hefur staðið fyrir mannránum og sprengjuárásum í nærri hálfa öld og borið ábyrgð á dauða um átta hundruð manna – sér í lagi spænskum lögreglumönnum, hermönnum og stjórnmálamönnum.

Spænsk yfirvöld hafa margoft bannað stjórnmálahreyfingar á vegum liðsmanna ETA, en þær hafa alltaf blossað upp á ný undir nýju nafni. Í sumum sveitarfélögum í spænskum hluta Baskalands hefur slíkum hreyfingum tekist að ná allt að fjórðungs fylgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×