Erlent

Slapp úr ólinni og var drepinn

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Grizz var tíu mánaða.
Grizz var tíu mánaða.
Mikil reiði er á Nýja-Sjálandi eftir að lögreglumaður skaut hundinn Grizz til bana á flugvellinum í Auckland í gær. Hundurinn, sem notaður var í öryggiseftirlit, hafði losnað úr ólinni og hlaupið út á völlinn, með þeim afleiðingum að röskun varð á nokkrum flugferðum.

Lögregluyfirvöld segja að ómögulegt hafi verið að ná hundinum, en atvikið varð til þess að sextán flugferðum seinkaði um nokkrar klukkustundir. Þá hefur breska ríkisútvarpið eftir starfsmanni flugvallarins að það hafi verið lokaúrræði lögreglumannsins að drepa hundinn.

Þessi ákvörðun lögreglumannsins hefur hins vegar vakið mikla reiði og furðar fólk sig á því að ekki hafi verið notuð deyfibyssa frekar.

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að hundurinn hafi verið laus í um tvær klukkustundir, og að hann hafi meðal annars hlaupið út á flugbrautir. Haft er eftir talsmanni lögreglunnar að allt hafi verið reynt til þess að ná hundinum.

„Við reyndum allt; mat, leikföng, aðra hunda, en ekkert virkaði,“ segir talsmaðurinn Mike Richards, og bætir við að á endanum hafi flugmálayfirvöld fyrirskipað að skjóta ætti hundinn.

Richards sagðist ekki vita hvers vegna hundurinn var ekki skotinn með deyfilyfi. „En það voru engar deyfibyssur á flugvellinum, og lögregla á heldur engar slíkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×