Erlent

Hefja rannsókn á afskiptum Rússa

Kjartan Kjartansson skrifar
Mark Warner (t.v.) og Richard Burr (t.h.) við upphaf yfirheyrsla leyniþjónustunefndar öldungadeildarinnar.
Mark Warner (t.v.) og Richard Burr (t.h.) við upphaf yfirheyrsla leyniþjónustunefndar öldungadeildarinnar. Vísir/EPA
Fulltrúi Demókrataflokksins sakaði Rússa um að reyna að „stela“ bandarísku kosningunum í fyrra þegar leyniþjónustunefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings hóf formlega rannsókn á afskiptum Rússa.

Rannsókn nefndarinnar mun meðal annars beinast að því hvernig rússnesk stjórnvöld dreifðu fölskum upplýsingum á samfélagsmiðlum í aðdraganda kosninganna. Mark Warner, hæst setti demókratinn í nefndinni, sagði herferðina „rússneskan áróður á sterum“ að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Rússneskir útsendarar hafi birt vandræðalegar stolnar upplýsingar á vefsíðum eins og Wikileaks og tímasett birtingu þeirra til að valda Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda demókrata, sem mestum skaða, að sögn Warner.

Formaður leyniþjónustunefndarinnar, repúblikaninn Richard Burr, sagði Bandaríkjamenn alla hafa verið skotmörk háþróaðs og færs óvinar. Varaði hann við því að nefndarmenn létu pólitík vefjast fyrir sér því þá muni rannsóknin að líkindum fara út um þúfur.

Rannsókn leyniþjónustunefndar fultrúadeildarinnar á meintum tengslum rússneskra embættismanna og samstarfsmanna Trump hefur einmitt ratað í öngstræti eftir að Devin Nunes, repúblikaninn sem fer fyrir henni, upplýsti forsetann um atriði sem hann fullyrti að hann hefði komist að, án þess að upplýsa aðra nefndarmenn.

Jared Kushner, tengdarsonur Trump, á að koma fyrir leyniþjónustunefnd öldungadeildarinnar í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×