Erlent

Fresta heimsókn til Mjanmar um viku

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Rohingjar í Bangladess bíða eftir matargjöf.
Rohingjar í Bangladess bíða eftir matargjöf. Nordicphotos/AFP

Yfirvöld í Mjanmar hafa frestað heimsókn diplómata Sameinuðu þjóðanna til Rakhine-héraðs. Frá þessu greindi talsmaður SÞ í Mjanmar í samtali við BBC í gær.

Talsmaðurinn sagði jafnframt að yfirvöld hefðu upphaflega ekki útskýrt hvers vegna heimsókninni var frestað en síðar hefðust fengið þær skýringar að það væri vegna veðurs. Ríkisstjórn Mjanmar hefur í staðinn ákveðið að taka á móti diplómötunum í næstu viku.

Nærri hálf milljón Rohingja-músl­ima hefur flúið héraðið undanfarnar vikur til Bangladess. Greint hefur verið frá því að orsökin sé ofbeldi og ofsóknir hermanna og almennra borgara í þeirra garð.

Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna sagðist á dögunum hafa heyrt sögur af því að Rohingjar væru drepnir án dóms og laga og að ríkisstjórn Mjanmar stæði að þjóðernishreinsunum í héraðinu.

Sameinuðu þjóðirnar sækjast eftir því að fá að heimsækja Rakh­ine-hérað til þess að rannsaka hvers vegna svo margir Rohingjar flýja héraðið. Mannúðarstarfsmenn Sameinuðu þjóðanna voru reknir frá héraðinu þegar átökin brutust út í ágúst. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×