Gunnar Nelson er aftur mættur inn á topp tíu á styrkleikalista UFC en nýr listi var birtur í gær.
Gunnar er í tíunda sætinu þar sem Johny Hendricks hrynur niður um heil fimm sæti eftir helgina. Þá tapaði hann gegn Neil Magny.
Það sem meira er þá náði Hendricks ekki vigt enn á ný en það hefur gengið illa hjá honum síðan lyfjaprófunum var breytt hjá UFC. Hann ætlar að færa sig upp um þyngdarflokk enda tapað þrem bardögum í röð í veltivigtinni.
Gunnar hefur ekki keppt síðan 8. maí er hann kláraði Albert Tumenov í annarri lotu. Það var eini bardagi Gunnars á síðasta ári en hann stefndi á að ná fjórum bardögum á árinu. Það gekk ekki eftir.
Kóreumaðurinn Dong Hyun Kim, sem Gunnar átti að berjast við í nóvember, fer upp um tvö sæti, í sjöunda sætið, en hann vann sigur á Tarec Saffiedine á UFC 207.
