Innlent

Björgunarsveitir fundu parið heilt á húfi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Fólkið var í skipulagðri vélsleðaferð.
Fólkið var í skipulagðri vélsleðaferð. vísir/vilhelm
Umfangsmikilli leit björgunarsveita að erlendu pari er nú lokið en fólkið fannst nú upp úr klukkan hálf níu norðaustan við Skálpanes. Fólkið var heilt á húfi en þáði heita drykki með þökkum að sögn Þorsteins G. Gunnarssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.

Björgunarsveitir Landsbjargar voru kallaðar út rétt fyrir hálf fjögur vegna parsins sem varð viðskila við hóp vélsleðafólks í skipulagðri vélsleðaferð sem lagði upp frá skála við Geldingafell þaðan að jökulsporðinum norðan Skálpaness. Þar var snúið við en á bakaleiðinni skall á vonskuveður og fólkið varð viðskila við hópinn. Alls tóku um 180 björgunarsveitarmenn þátt í leitinni, frá björgunarsveitum á Suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi.

„Þau fundust á því svæði sem við vorum búnir að skilgreina sem fyrsta leitarsvæði. Þau virðast hafa sem betur fer, þegar þau áttuðu sig á villunni, stoppað sleðann og beðið. Þau voru orðin pínu köld og voru drifin inn í björgunarsveitarbíl þar sem þeim var boðið upp á heita drykki og síðan verður ekið með þau í bæinn,“ segir Þorsteinn í samtali við Vísi.

Ásgeir Erlendsson, fréttamaður Stöðvar 2, ræddi við Þorstein um leitina í kvöldfréttum og má sjá viðtalið í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×