Viðskipti innlent

Carnegie og Deutsche Bank ráðgjafar við útboð Arion banka

Hörður Ægisson skrifar
Miðað bókfært eigið fé Arion banka er 87 prósenta hlutur Kaupþings metinn á um 180 milljarða.
Miðað bókfært eigið fé Arion banka er 87 prósenta hlutur Kaupþings metinn á um 180 milljarða.
Kaupþing hefur gengið frá samkomulagi við sænska fjárfestingabankann Carnegie og þýska stórbankann Deutche Bank um að bankarnir verði ráðgjafar í tengslum við sölu á hlut í Arion banka í gegnum almennt hlutafjárútboð. Þannig mun Carnegie vera á meðal leiðandi umsjónaraðila með útboðinu en Deutche Bank verður hins vegar í hlutverki söluráðgjafa.

Frá þessu var greint í frétt Reuters í gær en Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, hafði áður upplýst þann 11. janúar síðastliðinn að Kaupþing myndi innan skamms ganga frá ráðningu á ráðgjöfum vegna útboðsins og að Carnegie og Deutche Bank yrðu líklegast fyrir valinu. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins þá er einnig gengið út frá því að samið verði við íslenskt fjármálafyrirtæki um að vera söluráðgjafi við útboðið.

Stjórnendur Kaupþings, en eignarhaldsfélagið á 87 prósenta hlut í Arion banka, stefna að því að því að útboðið fari fram á fyrri árshelmingi, mögulega strax í apríl næstkomandi, og í kjölfarið verði bankinn skráður á markað í Kauphöll Íslands og í Kauphöllinni í Svíþjóð. Auk Carnegie eru bandarísku fjárfestingabankarnir Morgan Stanley og Citi, sem hafa verið ráðgjafar Kaupþings og Arion banka við söluferlið á undanförnum mánuðum og misserum, jafnframt leiðandi umsjónaraðilar með hlutafjárútboðinu.

Greint var frá því í Markaðnum í síðustu viku að nánast útilokað væri að hópur íslenskra lífeyrissjóða myndi kaupa tuga prósenta eignarhlut í Arion banka í gegnum lokað útboð. Viðræður milli Kaupþings og fulltrúa sjóðanna þess efnis hefðu runnið út í sandinn. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×