Skoðun

Um gæði nýju íslensku stjórnarskrárinnar – fyrsti hluti

David A. Carrillo skrifar
Í dag bregst ég við mótbárum þess efnis að aðferðin við að semja stjórnarskrárdrögin hafi skort lögmæti.

Í fyrsta lagi vefengi ég forsendurnar. Lögmæti stjórnarskrár ræðst af samþykki kjósenda. Hér voru að verki tuttugu og fimm ríkisborgarar (kosnir í fyrstu og svo skipaðir) og sömdu þeir stjórnarskrárdrögin. Nú hefur Alþingi gert nokkrar breytingar á þeim. Tvær skoðanakannanir leiddu í ljós (í október 2012 og janúar 2017) að flestir svarenda voru fylgjandi því að stjórnarskrárdrögin yrðu samþykkt. Það er til vitnis um að almenningur er hliðhollur því að samþykkt séu drögin sem fulltrúar hans sömdu. Hér felst lögmætið í þátttöku manna í ferlinu og samþykki þeirra, en ekki í sjálfu ferlinu.

Svo hafa sumir sagt að ferlið hafi ekki verið lýðræðislegt. Það er ekki rétt. Árið 2009 kom saman þjóðfundur um tólf hundruð manna (og voru flestir valdir af handahófi úr þjóðskrá en um hundrað voru fulltrúar stofnana) til að skilgreina þau grunngildi sem þjóðin vildi setja á oddinn. Í nóvember 2010 skipulögðu stjórnvöld svo annan þjóðfund þar sem 950 manns sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá komu saman skilgreindu grunngildi fyrir nýja stjórnarskrá. Sjálft ritunarferli nýrrar stjórnarskrár var svo í höndum tuttugu og fimm kjörinna fulltrúa og þegar kvartanir bárust vegna fyrirkomulags kosninga til stjórnlagaþings tilnefndi Alþingi sömu einstaklinga (með einni undantekningu þó, og næsti kjörni fulltrúinn tók við). Því má segja að þar hafi verið beitt handahófsvali, beinu kjöri og tilnefningum frá Alþingi, og vitaskuld eru alþingismenn þjóðkjörnir. Hvað er ólögmætt við að Alþingi skipi þátttakendur sem einnig voru kjörnir beint?Ef nokkuð er ætti almenningur frekar að kvarta undan of miklum afskiptum stjórnvalda. Nú hefur farsælt hjónaband almennings og stjórnvalda hins vegar leitt til fæðingar nýju stjórnarskrárdraganna. Nú er Alþingi auk þess búið að veita þeim drögum þinglega meðferð. Því er alveg ljóst að stjórnarskrárdrögin eru verk almennings og kjörinna fulltrúa.

Nokkrir stjórnmálamenn kvörtuðu undan því að þeir væru ekki hafðir með í ráðum. Það er ekki rétt. Alþingi var með í ráðum allan tímann. Í júní 2010 kaus Alþingi sérstaka stjórnarskrárnefnd til þess að virkja borgarana við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ferlið færðist frá nefndinni til stjórnlagaráðsins sem Alþingi setti líka á laggirnar. Þeir sem sæti áttu í ráðinu voru kjörnir og skipaðir af Alþingi og þeir sömdu stjórnarskrárdrög. Alþingi er búið að endurskoða þau drög og þannig standa málin í dag.

Rétt er að stjórnálamönnum var haldið utan við ráðið. Hugmyndin (frábær hugmynd) var að koma á stjórnlagaþingi sem eingöngu væri byggt á þátttöku almennings. Markmiðið var að fá almenning til þess að semja sér stjórnarskrá. Það hefði spillt fyrir því markmiði að kalla stjórnmálamenn til leiks. Nú eru stjórnarskrárdrögin hjá Alþingi sem er búið að endurskoða þau, þannig að Alþingi á núverandi útgáfu nýju stjórnarskrárinnar. Samkvæmt þeirri stjórnarskrá, sem nú er í gildi, þurfa tvö þing að samþykkja frumvarp til breytinga og skulu þingkosningar vera á milli þinganna. Tak gleði þína aftur, Alþingi, hlutur þinn var eigi lítill.

Ef ég hefði freistað þess að skipuleggja ferli til að semja drög að nýrri stjórnarskrá hefði það ekki getað virkjað almenning betur en raun varð á í því ferli sem spratt upp af sjálfu sér og fyrir ánægjulega tilviljun á Íslandi. Þið megið vera stolt af því sem þið hafið þegar afrekað, Íslendingar. Nú er bara að ljúka verkefninu.

Höfundur er lagaprófessor við Berkeley-háskóla í Bandaríkjunum.




Skoðun

Sjá meira


×