Innlent

Ástandið á Landspítalanum grafalvarlegt: „Nóg að sjá það sem er að gerast núna til að verða áhyggjufullur“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Álag og plássleysi á Landspítala er orðið svo mikið að viðbúnaður er kominn á hæsta stig. Fjöldi fólk, sérstaklega aldraðir og fjölveikir, geta ekki útskrifast af spítalanum þar sem það vantar hjúkrunarrými og endurhæfingu. Einnig vantar starfsfólk á spítalann - sérstaklega hjúkrunarfræðinga.

Ofan á þetta allt leggst flensa og skæður RS vírus með þeim afleiðingum að bráðamóttakan er stífluð, sjúklingar liggja á göngunum og gífurlegt álag er á starfsfólk.

Ástandið grafalvarlegt

Tómas Guðbjartsson sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að ástandið væri löngu orðið grafalvarlegt og ógnaði öryggi sjúklinga og starfsmanna.

„Ég spyr hvar er Vinnueftirlitið, Brunaeftirlitið og hvar er Landlæknir sem á að tryggja gæði þeirra þjónustu sem veitt er á Íslandi?”

Birgir Jakobsson, Landlæknir,  tekur undir áhyggjur stjórnar og starfsfólks spítalans. Í hádegisfréttum Bylgjunnar sagði hann það hlutverk landlæknis að vera eftirlitsaðili sem bendi á ef einhvers staðar er pottur brotinn.

„Við höfum ekki fengi neinar tilkynningar um alvarleg atvik sem benda til þess að ástandið sé verr núna en það hefur verið áður. En það er nóg að sjá það sem er að gerast núna til að verða áhyggjufullur.“

Breytingar nauðsynlegar til að komast að rót vandans

Birgir sagðist hafa talað um að breytingar þurfi að gera á íslensku heilbrigðiskerfi til að komast að rót vandans. Hann hefur rætt um húsnæðismál spítalans, ráðningarmál sérfræðinga, langan legutíma á spítalanum og svo framvegis sem gerir flæði spítalans ekki nógu skilvirk. Mikið meira geti hann ekki gert.

„Við höfum engin úrræði önnur og við bendum bæði stjórnendum Landspítalans og heilbrigðisyfirvöldim á það sem þarf að gera. En ef ég á að vera ærlegur þá hefur mjög lítið gerst á þeim tíma sem við höfum bent á þessi atriði,“ sagði Birgir Jakobsson landlæknir um vanda Landspítalans. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×