Annie Mist Þórisdóttir vann til bronsverðlauna á heimsleikunum í Crossfit.
Þetta er í fyrsta sinn í þrjú ár sem Annie Mist kemst á pall á heimsleikunum. Hún hlaut nafnbótina hraustasta kona heims 2011 og 2012.
Íslendingar röðuðu sér í þrjú af fjórum efstu sætunum í síðustu grein dagsins, Fibonacci Final.
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir vann greinina en Annie Mist endaði í 2. sæti. Sú síðarnefnda hefði þurft að enda í 6. sæti eða neðar til að Ragnheiður Sara kæmist upp fyrir hana á heildarlistanum.
Katrín Tanja Davíðsdóttir, sem vann keppnina 2015 og 2016, varð í 4. sæti í Fibonacci Final og í 5. sæti í heildina.
Ástralinn Tia-Clair Toomey er nýr meistari en hún hafði betur í baráttu við löndu sína, Köru Webb. Aðeins nokkrum sekúndubrotum munaði á þeim í lokagreininni.
Þuríður Erla Helgadóttir endaði í 18. sæti í heildina.
Lokastaðan í kvennaflokki:
1. Toomey 994 stig
2. Webb 992
3. Annie Mist 964
4. Ragnheiður Sara 944
5. Katrín Tanja 914
6. Reed-Beuerlein 888
