Sport

Ekki hið fullkomna handrit að Gatlin hafi unnið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Justin Gatlin vann óvæntan sigur í 100 metra hlaupi á HM í gær.
Justin Gatlin vann óvæntan sigur í 100 metra hlaupi á HM í gær. vísir/getty
Lord Coe, forseti alþjóðafrálsíþróttasambandsins, segir að sigur Justins Gatlin í 100 metra hlaupi á HM í frjálsum í gær hafi ekki verið í fullkomna handritinu.

Augu flestra voru á Usain Bolt í hlaupinu í gær enda hans síðasta 100 metra hlaup á ferlinum.

Þessi fótfráasti maður sögunnar varð hins vegar að gera sér 3. sætið að góðu. Hinn 35 ára Gatlin vann óvæntan sigur en hann hljóp á 9,94 sekúndum.

Áhorfendur á Lundúnaleikvanginum bauluðu á Gatlin sem hefur tvisvar sinnum verið dæmdur í keppnisbann fyrir ólöglega lyfjanotkun.

„Ég er ekki í skýjunum yfir því að maður sem hefur tvisvar sinnum verið dæmdur í bann hafi gengið út af vellinum með sigurlaunin. En hann átti rétt á að vera hér,“ sagði Lord Coe eftir hlaupið.

„Þetta var ekki hið fullkomna handrit. Mér fannst Usain mjög höfðinglegur eftir hlaupið. Þetta hlýtur að hafa verið erfitt fyrir hann að kyngja þessu.“

Þetta voru þriðju gullverðlaun Gatlins á HM en hann vann gull í 100 og 200 metra hlaupi á HM 2005 í Helsinki. Hann vann einnig gull í 100 metra hlaupi á Ólympíuleikunum 2004.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×