Innlent

Beðið um gistingu í fangaklefa í hverri viku

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Einu neyðarúrræðin fyrir útigangsfólk er í Reykjavíkurborg og sækja heimilislausir og utangarðsfólk í borgina þrátt fyrir að eiga lögheimili annars staðar. 

Í Reykjanesbæ hefur verið mikill húsnæðisskortur síðasta árið. Formaður bæjarráðs sagði í viðtali við fréttum okkar í gær að hundrað manns biði eftir félagslegu húsnæði en eins og annars staðar, er ekkert gistiskýli eða neyðarúrræði fyrir heimilislausa í bænum.

Ef einhver er í neyð þarf hann að snúa til lögreglunnar.

„Þetta tengist oft geðrænum vanda, áfengisneyslu og fíkniefnum. Þetta eru menn sem hafa verið reknir burt þaðan sem þeir hafa haft gistingu, hvort sem það er hjá ættingjum eða vinum," segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurnesjum.

Einhver gisti að eigin ósk í fangaklefa lögreglunnar í 54 nætur á síðasta ári. Það eru 4-5 skipti í hverjum mánuði eða einu sinni í viku.

Skúli segir þó eingöngu tvo til þrjá aðila hafa gist ítrekað yfir ákveðið tímabil og verið þá greinilega á götunni.

„Það eru alltaf einhverjir einstaklingar sem koma hingað og ef það er laus fangaklefi þá er hægt að sofa hér og fá teppi, koma inn í hlýjuna. Við ræðum svo við fólk um þeirra vandamál, hvort þeir séu að leita sér aðstoðar og þess háttar,“ segir Skúli sem telur líklegt að fólk eigi auðveldara með að komast inn hjá vinum og vandamönnum í smærri samfélögum.

„Þótt Reykjanesbær sé orðið stórt samfélag þá virðast menn ekki vera komnir með þörf fyrir gistiskýli," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×