Lögreglan beitti táragasi þegar þúsundir mótmælenda komu saman í Líma höfuðborg Perú til að mótmæla ákvörðun um að náða fyrrverandi forseta landsins, Alberto Fujimori.
„Nei við náðuninni“ hrópaði hópur fólks í Lima, höfuðborg Perú, í morgun á öðrum degi mótmælanna sem hófust á aðfangadagskvöld. Greint var frá því á dögunum að núverandi forseti landsins Pedro Pablo Kuczynski, hefði náðað Alberto Fujimori, fyrrverandi forseta landsins, af heilsufarástæðum en hann hefur verið í fangelsi vegna 25 ára dóms sem hann hlaut fyrir mannréttindabrot og spillingu.
Í síðustu viku var hann fluttur úr fangelsinu á spítala en hann þjáist af lágum blóðþrýstingi og óreglulegum hjartslætti. Tveir þingmenn í flokki Kuczynskis hafa sagt af sér þingmennsku í mótmælaskyni. Kuczynski sagðist skilja reiði fólksins vegna ákvörðunarinnar en sagðist ekki geta látið Fujmori deyja í fangelsi.
Stjórnarandstæðingar í Perú saka forsetann um að hafa lofað stuðningsmönnum Fujimori að náða hann í skiptum fyrir stuðning þeirra. Forsetinn hefur neitað því.
Þá hefur Kuczynski verið ásakaður um að náðunin tengist samningi sem hann hafi gert til að forðast að vera ákærður sjálfur fyrir að hafa tekið við ólöglegum greiðslum frá brasilísku verktakafyrirtæki. Hann hefur hafnað þeim ásökunum.
Fujimoris var forseti Perú frá 1990 til 2000 og var mjög umdeildur á meðal landa sinna. Hann á þó nokkra stuðningsmenn sem lofa hann fyrir baráttu sína gegn uppreisnarmönnum Maóista. Þeir hafa safnast saman fyrir utan sjúkrahúsið þar sem hann dvelur og fagnað því að hann verði látinn laus.
Lögreglan beitti táragasi á mótmælendur í Perú
Tengdar fréttir
Fyrrverandi forseti Perú náðaður
Alberto Fujimori tók sér einræðisvald í Perú á 10. áratugnum. Hann var meðal annars fundinn sekur um að hafa heimilað morð dauðasveita á fólki.