Ferðamenn á tveimur bílum á leið í austurátt til Egilsstaða urðu viðskila í gær, þar sem annar bíllinn ók um suðurfirðina en hinn stefndi upp á Breiðdalsheiði. Fjórir félagar úr Björgunarsveitinni á Djúpavogi fóru á tíunda tímanum að kvöldi jóladags og leituðu að fólkinu sem var í bílnum sem hafði farið upp á Breiðdalsheiði. Þeir fundu ferðalangana á Axarvegi fyrir ofan Berufjörð rétt fyrir ellefu, bíll þeirra sat þá fastur í snjó og hafði verið það í einhvern tíma.
Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu höfðu ferðamennirnir ætlað veginn um Breiðdalsheiði til Egilsstaða. Vegurinn var áður Þjóðvegur 1 en hefur nú númerið 95 og var merktur lokaður í gær. Náði Björgunarsveitafólkið að losa bílinn og fylgja honum niður að Þjóðvegi 1 þar sem fólkið hélt áfram för sinni til Egilsstaða.
Á sama tíma voru tæplega 100 björgunarsveitarmenn á suðvesturlandi að aðstoða lögregluna á Suðurnesjum við leit að ungum manni sem óttast var um. Maðurinn kom í leitirnar á ellefta tímanum og hlúð var að honum, eins og kom fram í tilkynningu frá lögreglunni.

