Innlent

Engin niðurstaða varðandi skipan dómara við Landsrétt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, í Alþingishúsinu í dag.
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, í Alþingishúsinu í dag. vísir/anton brink

Fundi stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar Alþingis þar sem fjallað var um skipan dómara við Landsrétt lauk á tíunda tímanum í kvöld án niðurstöðu.

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og starfandi formaður nefndarinnar, segir í samtali við Vísi að nefndin fundi aftur á morgun en ná þarf niðurstöðu í málið fyrir þinglok sem einmitt eru áætluð á morgun.

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, kom bæði á fund nefndarinnar í morgun og svo milli klukkan 13 og 14 í dag. Minnihlutinn í nefndinni telur vafa leika á því að tillaga hennar um þá 15 einstaklinga sem skipa skulu Landsrétt standist lög þar sem ráðherra leggur til að fjórir einstaklingar verði skipaðir sem ekki voru á lista hæfnisnefndar yfir þá hæfustu til að gegna embætti dómara við Landsrétt.

Njáll Trausti segir að nefndin fari nú í gegnum allar hliðar málsins en auk dómsmálaráðherra kom nokkur fjöldi gesta á fund nefndarinnar í dag. Á meðal þeirra sem komu voru formaður hæfnisnefndarinnar, Gunnlaugur Claessen, Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti, Reimar Pétursson,formaður Lögmannafélagsins og Ingibjörg Þorsteinsdóttir, varaformaður Dómarafélags Íslands.

„Það liggur fyrir hvert álitamálið er og það varðar hvort að rökstuðningur ráðherra teljist uppfylla þá rannsóknarskyldu sem hvílir á ráðherra sem kýs að víkja með svona verulegum hætti frá tillögu dómnefndar um hæfustu umsækjendur um dómaraembætti og það verður áfram reifað á fundinum á morgun,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna sem tekur sæti í nefndinni í þessu máli fyrir Svandísi Svavarsdóttur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×