Íslenski boltinn

Bara tvö kvennalið í sömu stöðu og Þór/KA á síðasta áratug

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Eyþór
Þór/KA vann 3-1 sigur á ÍBV í gær og er því með fullt hús eftir sex umferðir í Pepsi-deild kvenna. Á síðustu tíu tímabilum hafa aðeins tvö lið byrjað betur, Stjarnan vann alla átján leiki sína sumarið 2013 og Valur vann fjórtán fyrstu leiki sína sumarið 2008.

Bæði þessi lið, Stjarnan 2013 og Valur 2008, urðu Íslandsmeistarar þessi sumur en Stjörnuliðið tapaði ekki stigi og Valsliðið vann eftir harða samkeppni við KR.

Mark ÍBV kom úr vítaspyrnu og því eiga andstæðingar Þór/KA-liðsins enn eftir að skora hjá Bryndísi Láru Hrafnkelsdóttur, markverði Þór/KA, í opnum leik því hitt markið sem norðankonur fengu á sig kom einnig úr vítaspyrnu.   

Sandra María Jessen, sem sleit krossband í landsleik í mars, skoraði þarna sitt fyrsta mark í sumar en í leiknum áður átti hún stoðsendingu.

Hröð endurkomu Söndru Maríu er enn einn kaflinn í sumarævintýri Þór/KA-liðsins sem blómstrar undir stjórn Halldórs Jóns Sigurðssonar.

Flestir sigurleikir í röð frá upphafi móts í úrvalsdeild kvenna 2008-2017:

18 sigurleikir - Stjarnan, 2013

14 sigurleikir - Valur, 2008

6 sigurleikir - Þór/KA 2017

5 sigurleikir - Breiðablik, 2013

5 sigurleikir - KR, 2008

4 sigurleikir - Stjarnan, 2009

4 sigurleikir - Valur, 2010

4 sigurleikir - ÍBV, 2011




Fleiri fréttir

Sjá meira


×