Erlent

Morðið á Kim Jong Nam: Einn grunaðra segir lögreglu hafa hótað að drepa fjölskyldu sína

Anton Egilsson skrifar
Lögreglan telur að Ri Jong Chol hafi komið að morðinu, en geta ekki sannað það. Hann verður fluttur til Kína og þaðan til Norður-Kóreu og hefur verið meinað að koma aftur til Malasíu.
Lögreglan telur að Ri Jong Chol hafi komið að morðinu, en geta ekki sannað það. Hann verður fluttur til Kína og þaðan til Norður-Kóreu og hefur verið meinað að koma aftur til Malasíu. Vísir
Ri Jong Chol, einn þeirra sem grunaður er um aðild að launmorðinu á King Jong Nam, segir lögreglu hafa hótað að drepa konu hans og börn ef hann myndi ekki játa þátt sinn í morðinu. Sky segir frá þessu.

Chol var í gær sleppt úr haldi lögreglunnar í Malasíu í gær vegna skorts á sönnunargögnum á hendur honum. Hann segir að við yfirheyrslur hafi lögregla sýnt honum myndir af konu hans og börnum og hótað að taka þau af lífi.

„Þessir menn sögðu mér að játa á mig glæpinn, ef ekki þá myndi öll fjölskylda mín vera drepinn og ég myndi ekki vera óhultur.”

Átta manns frá Norður-Kóreu eru grunaðir um aðkomu að morðinu, en Chol er sá eini sem hefur verið handsamaður. Hann telur að um samsæri gegn heimalandi hans sé að ræða.

„Þeir sögðu að ef ég játaði allt gæti ég lifað góðu lífi í Malasíu. Það var þá sem ég áttaði mig á að þetta væri gildra, þetta væri samsæri til að setja smánarblett á orðspor þjóðar minnar.”

Kim Jong Nam, hálfbróðir Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, var myrtur á flugvellinum í Kuala Lumpur í síðasta mánuði. Tvær konur stöðvuðu hann á flugvellinum. Önnur tók um augu hans á meðan hin makaði vökva, sem þær töldu vera vatn eða barnaolíu, framan í hann. Þær segjast hafa haldið að þær væru að taka þátt í sjónvarpsgríni og þær hafi fengið tæpar tíu þúsund krónur fyrir.

Vökvinn var hins vegar VX-taugagas, sem er bannað um heim allan og skilgreint sem gereyðingarvopn af Sameinuðu þjóðunum.

Sjö einstaklinga frá Norður-Kóreu er nú leitað vegna gruns um aðild að morðinu.  Fjórir þeirra eru taldir hafa flúið til Pyongyang, höfuðborgar Norður-Kóreu, daginn eftir morðið en hinir þrír eru taldir halda til í Malasíu.

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa ekki viljað staðfesta að um Kim Jong Nam sé að ræða, en nágrannar þeirra í suðri halda því fram að hann hafi verið myrtur vegna skipanna bróður síns, sem litið hafi á hann sem mögulegan andstæðing um valdastólinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×