Innlent

Aðstaða fyrir ferðalanga í neyð opnuð á suðausturlandi

Þórdís Valsdóttir skrifar
Á myndinni má sjá staðsetningu félagsheimilanna sem Lögreglan á Suðurlandi hefur opnað fyrir ferðalanga sem ekki hafa í önnur hús að vernda.
Á myndinni má sjá staðsetningu félagsheimilanna sem Lögreglan á Suðurlandi hefur opnað fyrir ferðalanga sem ekki hafa í önnur hús að vernda. Vísir
Gríðarleg úrkoma hefur verið á Suðausturlandi og Austfjörðum undanfarna daga og hafa vegir skemmst víða vegna vatnavaxta. Þjóðvegi 1 var lokað í dag við Hólmsá á Mýrum og hefur Lögreglan á Suðurlandi brugðið á það ráð að opna aðstöðu fyrir ferðalanga sem komast ekki leiða sinna.

Tvö félagsheimili hafa verið útbúin á svæðinu, annað í Hofgarði og hitt í Mánagarði. Húsin eru staðsett sitt hvorum megin við lokun þjóðvegarins.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, sagði að enginn væri kominn í húsin nú á sjötta tímanum og ekki er vitað við hversu mörgum megi búast.  

„Við hvetjum fólk til þess að finna sér aðra gistingu, ef mögulegt er.“ Lögreglan býst við því að fá innlenda jafnt sem erlenda ferðamenn en aðstaðan er opin öllum þeim sem ekki eiga í önnur hús að vernda.

Gunnar Ingi Valgeirsson, forstöðumaður á Mánagarði, segir að íþróttahúsið og samkomuhúsið sé vel útbúið til að taka á móti fólki. „Þetta er fimleikasalur svo það er nóg af dýnum og eldhúsið er vel útbúið,“ sagði Gunnar Ingi.

Úrhellisrigning hefur verið á svæðinu síðustu daga og arað hafði verið við vatnavöxtum. Þrátt fyrir  að útlit hafi verið fyrir mikið regn sagði veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í dag að vatnavextirnir á Fljótsdalshéraði hafi komið á óvart.

Sveinn Kristján segir að óvíst sé hvenær vegurinn muni verða opnaður aftur en útlit er fyrir að hann verði ekki opnaður fyrr en seinnipart fimmtudags.


Tengdar fréttir

Aldrei séð svona mikið úrhelli

Þetta er það mesta sem ég nokkurn tímann séð. Sama segir pabbi, segir Eiður Ragnarsson á Bragðavöllum í Hamarsfirði á Austurlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×