Talið er að tugir kinda hafi drepist og á túnum á Valþjófsstaðanesi liggur klofhátt vatn yfir túnunum að stórum hluta. Gríðarleg úrkoma hefur verið á Suðausturlandi og Austfjörðum undanfarna daga og segjast íbúar þar aldrei hafa séð aðra eins úrkomu og þá sem gengið hefur yfir austanvert landið undanfarin sólarhring.
Sjá einnig:Aldrei séð svona úrhelli
Varað hefur verið við vatnavöxtum á þessu svæði undanfarna daga en Óli Þór segir að vatnavextirnir á Fljótsdalshéraði hafi samt sem áður komið á óvart.

Finnska hæðin veldur usla
Á vef Veðurstofunnar má sjá að rennsli í Jökulsá í Fljótsdal hefur nærri þrefaldast á örfáum klukkutímum við Valþjófsstaðanes. Þá hefur vatnshæð hækkað um nærri einn og hálfan metra. Þurftu björgunarsveitarmenn að sigla um túnin á bátum til þess að bjarga því sem hægt var að bjarga.Sjá einnig: Ágætt að láta loka sig inni annað slagið
Óli Þór telur þó líklegt að vatnsstaðan á túnunum fari lækkandi í nótt og á morgun en ekki sé hægt að segja til um hversu hratt það gerist. Það muni fara eftir því hvenær hætti að rigna á vatnasviðum ánna á Fljótsdalshéraði.

„Það er þessi gríðarstóra hæð yfir Finnlandi sem heldur þessu þarna í járngreipum, hún situr bara föst þarna á sama stað,“ segir Óli Þór sem telur þó líklegt að draga muni úr úrkomunni á morgun. „Um miðjan dag á morgun fara þessi skil nokkuð hratt austur og þá verður hlé.“
Að neðan má sjá myndasyrpu sem Ingi Ragnarsson, sem rekur ferðaþjónustu á Bragðavöllum í Hamarsfirði ásamt bróður sínum Eiði, tók af Hamarsá og umhverfi í dag.