Innlent

Lykilvitni í hnífsstungumáli farin úr landi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn játaði verknaðinn.
Maðurinn játaði verknaðinn. Vísir/getty
Hæstiréttur hefur vísað frá kröfu héraðssaksóknara um að vitni í hnífsstungumáli þar sem karlmaður sætir ákæru fyrir tilraun til manndráps fái að gefa skýrslu í gegnum síma eða annað fjarskiptatæki. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður hafnað kröfunni.

Eins og Vísir fjallaði um í febrúar er karlmaður um þrítugt ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa stungið kunningja sinn með hnífi í heimahúsi í Seljahverfinu í Breiðholti í höfuðborginni laugardaginn 5. nóvember. 

Hnífsstunga eftir rifrildi

Maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi frá því hann var handtekinn í nóvember en í greinargerð lögreglu sem fylgdi kröfu um gæsluvarðhald segir að ákærði hafi stungið manninn í kjölfar rifrildis þeirra og þriðja manns. 

Mennirnir tveir voru ósáttir við að ákærði væri að fela fyrir þeim bjór sem þeir töldu sig eiga inni hjá honum. Varð ákærði ósáttur við ávirðingarnar, fór inn í eldhús og sótti sér hníf. Lýsingar mannanna eru á þá leið að ákærði hafi verið æstur og ógnandi þar sem hann hélt á hnífnum.

Aðalmeðferð í málinu hófst þann 15. mars síðastliðinn en saksóknari greindi frá því að ekki hefði tekist að fá tvö vitni til að koma til landsins og gefa skýrslu. Þau væru búsett í Litháen. Þá hefði ekki tekist að hafa uppi á þriðja vitninu.

Var farið þess á leit að vitnin tvö fengju að gefa skýrslu í gegnum tíma og sömuleiðis þriðja vitninu tækist að hafa uppi á því. Verjandi málsins mótmælti þessu enda væri vitnisburðurinn „augljóslega mikilsverður“ og bryti það gegn mannréttindum ákærða ef vitnin þyrftu ekki að gefa skýrslu fyrir dómi.

Lykilvitni mega ekki gefa skýrslu í gegnum síma

Í sakamálalögum segir að sé vitni statt fjarri þingstað eða það hafi annars sérstak óhagræði af því að koma fyrir dóm þá geti dómari leyft skýrslutöku í gegnum síma eða annað fjarskiptatæki. Það megi þó ekki ef úrslit málsins gætu ráðist af vitnisburðinum.

„Mikilvægi vitnisburðar vitnanna sem um ræðir er augljóst og mjög líklegt að úrslit málsins geti ráðist af vitnisburði þeirra,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms. Var því kröfu ákæruvaldsins hafnað og kærði héraðssaksóknari úrskurðinn til Hæstaréttar.

Hæstiréttur vísaði hins vegar málinu frá þar sem héraðssaksóknari hefði ekki heimild til að kæra úrskurðinn eftir að aðalmeðferð væri hafin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×