Innlent

Ákæra vegna manndráps verður þingfest í dag

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Grímur Grímsson fór fyrir rannsókn málsins.
Grímur Grímsson fór fyrir rannsókn málsins. vísir/anton brink
Ákæran yfir Thomasi Møller Olsen, sem ákærður er fyrir að hafa banað Birnu Brjánsdóttur, verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag.

Honum var birt ákæran á fimmtudag. Í ákærunni er maðurinn sakaður um að hafa veist að Birnu með ofbeldi í Kia Rio-bifreið. Síðan hafi hann varpað henni í sjó eða vatn.

Hinn maðurinn sem handtekinn var vegna gruns um aðild að málinu en síðar látinn laus eftir tæplega tveggja vikna gæsluvarðhald fékk fyrir helgi bréf þess efnis að málið gegn honum yrði látið niður falla.

„Það er fellt niður á þeim grunni að það teljist ekki líklegt til sakfellingar,“ segir Unnsteinn Örn Elvarsson, verjandi hans. Hann segir skjólstæðing sinn óðum vera að jafna sig eftir málið og vera farinn á sjó aftur. „Hann fór fyrst í vinnu fyrir rúmri viku. En það var búið að fresta því að hann mætti í vinnu af því að hann var ekki í stakk búinn til þess. Hann er eflaust ekki hundrað prósent en þó betri.“

Unnsteinn segir skjólstæðing sinn hafa gefið skýrslu áður en hann yfirgaf landið en minnir á að hann hafi lýst sig viljugan til þess að koma og gefa skýrslu ef eftir því yrði kallað. „Það er ekkert sem stoppar það annað en að hann er í vinnu úti á sjó.“

Unnsteinn segist ekki hafa rætt við skjólstæðing sinn um hugsanlega málssókn á hendur íslenska ríkinu vegna handtökunnar og gæsluvarðhaldsins frá því að hann fór af landi brott. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×