Viðskipti innlent

Forstjóri Samskipa segir fyrirtækið fara að lögum og reglum

Heimir Már Pétursson skrifar
Forstjóri Samskipa segir fyrirtækið leggja áherslu á að fara í einu og öllu eftir lögum og reglum um launakjör og aðstæður starfsmanna sem vinna hjá fyrirtækinu í gegnum undirverktaka í Evrópu. Verið sé að kanna kæru gegn fyrirtækinu í Hollandi og brugðist verði við með viðeigandi hætti reynist efni kærunnar á rökum reistar.

Hollenski fréttaskýringaþátturinn EenVandaag greindi frá því í vikunni að stéttarfélagið FNV þar í landi hefði lagt fram kæru á Samskip vegna launakjöra og aðstæðna vörubílstjóra á vegum fyrirtækisins frá ríkjum Austur Evrópu.  Þeir fengju einungis um 35 þúsund krónur í mánaðarlaun og yrðu að sofa í bílum sínum. Fyrirtækið mismunaði þannig starfsfólki eftir þjóðerni.

Pálmar Óli Magnússon forstjóri Samskipa  segir fyrirtækið taka þessa umfjöllun alvarlega og hafi þegar haft frumkvæðið að því að rannsaka þessar ásakanir sem beinist gegn undirverktaka Samskipa í Hollandi.

„Það er alveg ljóst að við skorumst ekki undan þeirri ábyrgð ef undirverktakar okkar eru ekki að fara að lögum og reglum. Þá eru þeir um leið að brjóta samninga við okkur. Við munum rifta samningum við slíka aðila reynist þetta rétt.“

Þið hafi svo sem gert það áður ekki rétt?

„Jú, því miður hafa tilvik komið upp áður þar sem við höfum þurft að gera það,“ segir Pálmar Óli. 

Tvö slík tilvik hafi komið upp á síðasta ári. Pálmar Óli segir að fólk bæði utan og innan ríkja Evrópusambandsins geti verið í vinnu hjá fyrirtækinu og undirverktökum þess í Evrópu. Samskip flytji um níu hundruð þúsund gámaeiningar árlega vítt og breytt um Evrópu og sé með starfsstöðvar á 26 stöðum í álfunni.

„Eðli málsins samkvæmt eru vörur á okkar vegum að koma héðan og þaðan og enda hér á þar um Evrópu. Þannig að við erum að veita beint og óbeint fjölda bílstjóra og annarra starfsmanna vinnu um alla Evrópu,“ segir forstjórinn.

Hann segist ekki enn sem komið er hafa aðrar upplýsingar um kæruna í Hollandi en fram komi í hollenska sjónvarpsþættinum. Samkvæmt honum varði málið vörubílstjóra frá Rúmeníu sem tilheyri Evrópusambandinu.

„Það gilda innan Evrópusambandsins og í hverju landi fyrir sig skýrar reglur varðandi kaup og kjör og varðandi vinnutilhögun. Við förum eftir þeim reglum í einu og öllu í öllum þeim löndum þar sem við störfum,“ segir Pálmar Óli.

Honum sé ekki kunnugt um að starfsmenn frá ríkjum utan Evrópusambandsins starfi á vegum fyrirtækisins nú en lög og reglur Evrópusambandsins nái einnig yfir slíka starfsmenn þótt kjarasamningar þeirra landa gætu verið í gildi.

„Ef menn eru ekki að uppfylla öll þessi lög og reglur eru menn um leið að brjóta samkomulag við okkur og þá riftum við samningum við þá tafarlaust.“

Þið eruð að kanna þetta mál ofan í kjölinn og munið þá bregðast við með viðeigandi hætti?

„Já, það munum við gera,“ segir Pálmar Óli Magnússon.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×