Fréttastofa AP ræddi við bargesti barsins Mac's Club Deuce sem staðsettur er við Miami Beach. Barinn er opinn þrátt fyrir að einn öflugasti fellibylur í sögu Flórída sé á leiðinni.
„Hvert ætti ég að fara,“ segir Kathleen Peca, sem býr í grennd við barinn. „Þetta verður ekki svo svo slæmt. Ég bý á annarri hæð og er með sérstyrkta glugga. Ég hef kastað kókoshnetum í gluggann og þeir brotnuðu ekki.“
Yfirvöld í Flórída hafa skipað 5,6 milljónum íbúa í Flórída að yfirgefa heimili sín og ríkisstjórinn segir að allir íbúar ríkisins, alls 21 milljón, þurfi að vera reiðubúnir að fara frá heimilum sínum vegna Irmu.

„Ég hef tvo valkosti, að bíða eða fara norður, sem er slæm hugmynd,“ segir Michel Polette, sem býr á South Beach. „Ef maður keyrir til Atlanta eða Tallahasse á maður á hættu að verða bensínlaus. Þá gæti maður verið fastur í bílnum á meðan fjórða stigs fellibylur skellur á.“
Ólétt en fer ekki fet
Á meðal þeirra sem ákvað að verða eftir er Stefani Travieso. Hún er komin átta mánuði á leið og býr í hverfi sem skemmdist mikið þegar fellibylurinn Andrew lét til sín taka árið 1992. Hún segir að óléttan hafi komið í veg fyrir að hún hafi yfirgefið heimili sitt.„Ef ég væri ekki ólétt væri ég í bíl á leið norður með eiginmanni mínum og hundi,“ segir Travieso. Læknir hennar ráðlagði henni að vera á öruggum stað þar sem henni þætti þægilegt að vera.
Bandaríska veðurstofan greindi frá því í gær að líklega yrði meðalvindhraði Irmu um 74 metrar á sekúndu þegar stormurinn skellur að öllum líkindum á Flórída. Greindi veðurstofan frá því í gær að vegna Irmu gæti suðurhluti Flórída orðið óbyggilegur í vikur, jafnvel mánuði.
Reiknað er með Irma gangi á land í Flóría seint í kvöld eða snemma á morgun. Gagnvirkt kort af Irmu má sjá hér að neðan.