Innlent

Dæmdur fyrir guðlast 1983 en hlýtur frelsisverðlaun í dag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Úlfar Þormóðsson er eini núlifandi Íslendingurinn sem dæmdur hefur verið fyrir að gera grín að fermingarathöfnum. Hann veitti frelsisverðlaunum Ungra Pírata viðtöku í dag.
Úlfar Þormóðsson er eini núlifandi Íslendingurinn sem dæmdur hefur verið fyrir að gera grín að fermingarathöfnum. Hann veitti frelsisverðlaunum Ungra Pírata viðtöku í dag. Ungir Píratar
Frelsisverðlaun Ungra Pírata voru veitt í fyrsta sinn í dag. Verðlaunin hlutu Úlfar Þormóðsson og Snarrótin en Úlfar er eini núlifandi Íslendingurinn sem dæmdur hefur verið fyrir að gera grín að fermingarathöfnum, að því er segir í tilkynningu frá Pírötum.

„Frelsisverðlaununum er ætlað að verðlauna baráttufólk fyrir borgararéttindum og aðra talsmenn frelsis,“ segir enn fremur í tilkynningu.

Úlfar Þormóðsson og Snarrótin hljóta verðlaunin í ár en árið 1983 var Úlfar dæmdur fyrir guðlast. Í kjölfarið voru öll eintök af tímaritinu Speglinum gerð upptæk en þar birtist téð grín Úlfars að fermingarathöfnum - sem ekki mátti lengur lesa.

„Í dag þætti mörgum þetta grín meinlaust en þó eru ekki nema tvö ár síðan lög um guðlast voru afnumin. Úlfar andmælti dóminum í bók sem kom út ári síðar, Bréf til Þórðar frænda, en málið vakti mikla umræðu og athygli og átti stóran þátt í að breyta viðhorfi fólks í landinu. Barátta Úlfars gerði það að verkum að hann var síðasti maðurinn dæmdur með þessum lögum,“ segir í tilkynningu Ungra Pírata.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður Ungra Pírata, er hér við verðlaunaafhendinguna í dag ásamt fulltrúum Snarrótarinnar.Ungir Píratar
Snarrótin, hinn verðlaunahafi dagsins, er samtök sem tala fyrir auknum borgararéttindum. Með verðlaunaafhendingunni vilja Ungir Píratar hvetja Snarrótina til að halda áfram vinnu sinni, birta greinar, sýna heimildamyndir og fá til landsins fyrirlesara.

Að verðlaunaafhendingunni lokinni verður aðalfundur Ungra Pírata haldinn að Síðumúla 23 í Reykjavík þar sem ný stjórn verður kosin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×