Innlent

Opið hús í St. Jósefsspítala

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Starfshópur um framtíð St. Jósefsspítala leggur mikla áherslu á að fá hugmyndir frá bæjarbúum.
Starfshópur um framtíð St. Jósefsspítala leggur mikla áherslu á að fá hugmyndir frá bæjarbúum. Vísir/Pjetur
Hafnarfjarðarbær hefur eignast St. Jósefsspítala á nýjan leik. Spítalanum var lokað árið 2011 og lá hann undir miklum skemmdum eftir að hafa staðið ónotaður þangað til nú.

Hafnarfjarðarbær hóf viðræður við íslenska ríkið um kaup á spítalanum á síðasta ári en Hafnarfjarðarbær átti 15 prósenta hlut í sjúkrahúsinu og ríkið 85 prósenta hlut.

Spítalinn var byggður árið 1926 að frumkvæði reglu heilags Jósefs en arkitekt hússins var Guðjón Samúelsson. Árið 1987 seldu St. Jósefssystur Hafnarfjarðarbæ og ríkissjóði spítalann.

Óskað eftir hugmyndum um framtíð húsnæðisins

Húsnæðið er um 3.000 fermetrar og hefur bærinn skuldbundið sig til að reka almannaþjónustu í húsinu næstu 15 árin.

Starfshópur um framtíð St. Jósefsspítala leggur mikla áherslu á að fá hugmyndir frá bæjarbúum og hefur verið opnuð netgátt þar sem hægt að að koma hugmyndum á framfæri við hópinn. Óskað er eftir „hugmyndum um starfsemi sem myndi glæða þetta sögufræga hús lífi og vera Hafnfirðingum og gestum þeirra til sóma og gleði.“ Starfshópurinn mun vinna úr innsendum tillögum auk annarra hugmynda og skila niðurstöðum sínum til bæjarráðs í síðasta lagi 15. október.

Í dag verður opið hús í St. Jósefsspítala á milli klukkan eitt og þrjú. Leiðsögn verður um húsnæðið og gestum gefst kostur á að koma á framfæri sínum hugmyndum um framtíð húsnæðisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×