Innlent

Hitamet slegið á Egilsstöðum

Haraldur Guðmundsson skrifar
Kiddi Vídjófluga, íbúi á Egilsstöðum.
Kiddi Vídjófluga, íbúi á Egilsstöðum.
„Þetta var næstum því eins og á Jamaíka,“ segir Kristinn Kristmundsson, betur þekktur sem Kiddi Vídjófluga, íbúi á Egilsstöðum, um hitametið sem slegið var í bænum í gær.

Hitinn mældist 26,4 gráður og aldrei áður hefur svo hár hiti mælst á landinu í septembermánuði. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands var gamla metið sett á Dalatanga þann 12. september árið 1949. Mældust þá 26 gráður á Celsíus.

„Ég ætlaði út úr bænum en tímdi ekki að fara því veðrið var svo gott. Þetta var mjög óvænt að fá svona. Þó ég sé kannski ekki voðalega gamall, eða jæja, ég er rúmlega sextugur, man ég í fljótu bragði ekki eftir svona svakalega miklum hita. Þetta var óstjórnlega gott veður,“ segir Kiddi.

Heitur loftmassi er yfir landinu. Þá mælist einnig mikill hiti á hálendinu norður af Vatnajökli þar sem jörðin er dökk á lit og hlýnar í sólinni. Hlýja loftið berst svo þaðan austur á Hérað.

Áfram er spáð miklum hlýindum á Austfjörðum og um hádegi í dag er útlit fyrir sautján stiga hita, skýjað með köflum og sól. Á sunnudag gæti hitinn náð nítján stigum.

„Nú er bara að njóta þess að vera meira úti enda ekki oft sem maður getur notið þess að vera í svona góðu veðri,“ segir Kiddi Vídjófluga. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×