Erlent

Bretadrottning næstum skotin af hallarverði

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Vörðurinn hélt að drottningin væri óboðinn gestur.
Vörðurinn hélt að drottningin væri óboðinn gestur. Vísir/Getty
Elísabet Bretadrottning er, þegar öllu er á botninn hvolft, mennsk og á oft erfitt með að festa svefn. Hún á það því oft til að fara í stuttan göngutúr um garðinn við Buckinghamhöll til að leita að ró, samkvæmt fyrrum hallarverði sem ræddi við The Times.

Það munaði þó mjóu eitt kvöldið þegar drottningin var á kvöldgöngu klukkan þrjú um nótt og vörðurinn hélt að hún væri óboðinn gestur. Vörðurinn spurði hver væri á ferðinni og þá reyndist það enginn annar en drottningin sjálf.

„Hver þremillinn yðar hátign. Ég skaut þig næstum því,“ á hann að hafa sagt við drottninguna í óðagoti.

Drottningin virtist þó vera hin rólegasta og sagði að næst myndi hún láta vita af sér „svo þú þurfir ekki að skjóta mig.“

Töluvert er um að fólk reyni að lauma sér inn á lóðina við Buckingham höll en þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem verðir góma meðlimi konungsfjölskyldunnar í misgripum. Árið 2013 var Andrew prins ógnað af vopnuðum verði þar sem hann var á göngu um lóðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×