Innlent

Spreyjað á þrjár kirkjur til viðbótar á Akureyri

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Spreyjað var á suðurhlið og framhlið Akureyrarkirkju og þrjár kirkjur til viðbótar.
Spreyjað var á suðurhlið og framhlið Akureyrarkirkju og þrjár kirkjur til viðbótar. vísir/svavar alfreð jónsson
Eins og greint var frá í morgun voru skemmdarverk unnin á Akureyrarkirkju þar sem spreybrúsi var notaður til að úða ýmsum ókvæðisorðum á framhlið og suðurhlið kirkjunnar.

Það var þó ekki aðeins spreyjað á Akureyrarkirkju heldur einnig á Glerárkirkju, Kaþólsku kirkjuna og Hvítasunnukirkjuna að sögn Jóhanns Olsen, varðstjóra hjá lögreglunni á Akureyri, þó að Akureyrarkirkja hafi orðið verst úti.

Hann segir að svo virðist sem sama spreyið hafi verið notað og ýmislegt bendi til þess að sömu aðilar hafi verið að verki hjá öllum fjórum kirkjunum. Eitt af því sem lögreglan skoðar er hvort að eftirlitsmyndavélar í eða við kirkjurnar geti gefið einhverja vísbendingu um hver eða hverjir voru að verki.

Jóhann kveðst ekki muna eftir því að skemmdarverk hafi verið unnin á svo mörg kirkjum á Akureyri á sama tíma en áður hefur verið spreyjað á Akureyrarkirkju auk þess sem eitt sinn var reynt að kveikja í henni.

Í færslu á Facebook óskar lögreglan eftir upplýsingum um mannaferðir við kirkjurnar síðastliðna nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×