Grímur Grímsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn sem sér um rannsókn málsins, staðfestir við Vísi að mennirnir þrír hafi verið fluttir frá borði. Lögreglubílunum var í framhaldinu ekið á lögreglustöðina á Hverfisgötu þar sem yfirheyrslur fara fram.
Nokkur fjöldi fólks var saman kominn við lögreglustöðina og héldu allir nema einn sig fyrir utan girðinguna sem afmarkar svæði lögreglu aftan við lögreglustöðina. Sá eini fór inn á svæðið og tók myndir ofan í lögregluaðgerðum við lítinn fögnuð lögreglumanna sem brugðust illa við.
Að neðan má sjá þegar mennirnir voru færðir inn á lögreglustöð.
Fram hefur komið að mennirnir þrír hafi réttarstöðu grunaðs manns í málinu. Fyrir liggur að einn skipverji Polar Nanoq hafði rauða Kia-Rio bifreið, sem lögregla lagði hald á við Hlíðarsmára í gær, á leigu föstudaginn 13. janúar. Henni var skilað daginn eftir.
Í millitíðinni hvarf Birna Brjánsdóttir.

Lögregla segir að ekki liggi fyrir hvort Kia Rio-bifreiðin sem skipverjinn leigði sé sú sama og sást í eftirlitsmyndavélum í miðbæ Reykjavíkur. Gæðin í eftirlitsmyndavélunum í miðbænum eru ekki næg til að greina númeraplötu bílsins.

Reikna má með því að farið verði fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum þremur. Til þess hefur lögregla sólarhring frá því þeir voru handteknir. Tveir voru handteknir í hádeginu í gær og sá þriðji á níunda tímanum í kvöld.
Lögregla hefur því annars vegar til hádegis á morgun að fara fram á gæsluvarðhald yfir skipverjunum tveimur og fram á annað kvöld að óska eftir varðhaldi yfir hinum þriðja.