Fyrrverandi landsliðsþjálfari Króatíu, Lino Cervar, þjálfar nú makedónska liðið og hann hefur vakið athygli fyrir hversu mikið hann spilar með sjö sóknarleikmenn inni á vellinum.
„Við höfum nú ekki lent mikið í því upp á síðkastið að spila við slíkt lið. Þetta er öðruvísi og er því áskorun. Við vitum hver er langhættulegasti maður liðsins en það er auðvitað Kiril Lazarov. Það er ekki bara að hann skjóti mest heldur gefur hann líka flestar sendingar,“ segir Arnór. Hann býst þó ekki við því að liðið taki hann úr umferð en það vekur annars athygli hversu lítið er almennt verið að beita þeirri taktík að taka úr umferð í dag.
„Það er allt í lagi að Lazarov skori tíu mörk í leiknum á meðan hinir gera það ekki líka. Þetta er lína sem við þurfum að feta rétt.“

Á meðan strákarnir okkar fengu fína hvíld í dag þá þurftu Makedóníumenn að glíma við Spánverja seint í gærkvöldi. Þeir fá því frekar litla hvíld fyrir Íslandsleikinn sem ætti að koma okkur mönnum til góða.
„Vonandi hjálpar það okkur. Við kvörtum ekki yfir því. Við vorum í álagi um helgina en núna er komið að þeim,“ segir Arnór en hann er tilbúinn í þennan úrslitaleik sem slagur dagsins verður. Það er bara mótið undir.
„Það er frábært að hafa þetta í okkar höndum. Með sigri er ljóst að við munum fara áfram og við munum selja okkur dýrt til þess að næla í úrslitin sem við þurfum að fá. Stefnan var alltaf að fara áfram í sextán liða úrslitin og það hefur ekkert breyst.“

Uppstilltur sóknarleikur íslenska liðsins hefur gengið brösuglega á köflum og liðið skorað minna en á síðustu mótum.
„Við ætlum ekki að gera neitt nýtt þar heldur bara halda áfram að bæta okkur í því sem við erum að reyna að gera. Vonandi verður það nóg. Ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu og held að það verði í lagi með sóknina,“ segir Arnór en hann er ánægðastur með vörnina og markvörsluna á mótinu. Sjálfur glímdi hann við meiðsli í aðdraganda mótsins en segist vera góður eftir fjóra hörkuleiki.
„Ég er bara góður og líður vel. Ég er meira en tilbúinn í hörkuleik. Ég vil samt alltaf meira og ég verð ekki ánægður nema við vinnum þennan leik. Andinn í hópnum er góður og menn eru þokkalega sáttir við spilamennskuna þrátt fyrir að við höfum ekki fengið öll þau stig sem við vildum. Það er gott sjálfstraust í liðinu og við trúum því að við getum unnið Makedóníumennina,“ segir Arnór, en óttast hann ekkert að taugarnar haldi ekki hjá óreyndari mönnum?
„Strákarnir eru búnir með þessa leiki nú þegar og hafa fengið sína eldskírn. Þeir verða tilbúnir eins og við gömlu. Þetta verður skemmtilegt.“
Ekki missa af neinu sem gerist á HM í Frakklandi. Vísir er með öflugt fréttateymi á mótinu sem færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).