Viðskipti innlent

Slitum Atorku Group formlega lokið

Haraldur Guðmundsson skrifar
Höfuðstöðvar Atorku Group voru um tíma við Hlíðasmára í Kópavogi.
Höfuðstöðvar Atorku Group voru um tíma við Hlíðasmára í Kópavogi.
Atorku Group hf. var formlega slitið þann 9. desember síðastliðinn og söluandvirði síðustu eigna eignarhaldsfélagsins greitt út til hluthafa. Engar kröfur bárust á hendur félaginu í kjölfar innköllunar skilanefndar og fór því engin úthlutun fram til kröfuhafa sem tóku félagið yfir í ársbyrjun 2010.

Þar með lauk 26 ára sögu Atorku en það var um árabil eitt af umsvifamestu fjárfestingarfélögum landsins. Félagið var skráð í Kauphöll Íslands en það hét áður Íslenski hlutabréfasjóðurinn og var stofnað árið 1990 af Landsbréfum, dótturfélagi Landsbankans. Tólf árum síðar samþykktu hluthafar þess að breyta áherslum í rekstri og fór þá Þorsteinn Vilhelmsson, fyrrverandi stjórnarformaður Atorku Group og síðar stærsti hluthafi fyrirtækisins, inn í eigendahópinn. Nafni félagsins var í kjölfarið breytt og tveimur árum síðar yfirtók Atorka Sæplast hf. sem lagði grunninn að plastframleiðslufyrirtækinu Promens. Atorka jók í kjölfarið áherslu sína á fjárfestingar erlendis. Hlutabréf Atorku náðu hæstu hæðum í október 2007 þegar verðmæti þeirra námu 37 milljörðum króna.

Eigendahópur sem tók við félaginu árið 2010 skiptist gróflega í þrjár blokkir; Íslandsbanka/Glitni, hóp sem telur yfir tuttugu lífeyrissjóði, og aðra hluthafa og þar á meðal Arion banka. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×