Miklir kuldar með snjókomu hafa hrjáð íbúa í suðaustanverðri Evrópu undanfarið. Tugir hafa látið lífið.
Flóttafólk á grísku eyjunum við Tyrkland hefur átt erfitt í kuldunum, enda hefst það við í flóttamannabúðum þar sem húsnæðið er einungis hugsað til bráðabirgða.
Svipaða sögu er að segja af flóttafólki víðar á Grikklandi, í Ungverjalandi, Serbíu og Búlgaríu.
Mannréttindasamtökin Human Rights Watch segja stjórnvöld í þessum ríkjum engan veginn standa í stykkinu. Sama megi segja um Evrópusambandið, sem ásamt stjórnvöldum ríkjanna ber ábyrgð á því að aðstæður flóttafólksins séu sómasamlegar.
Í Grikklandi var í gær spáð enn harðnandi frosti, allt niður í sextán stiga frost.
Gríska dagblaðið Kathimerini skýrir frá því á fréttavef sínum að vatnsskortur hrjái einnig mörg heimili í Þessalóníku vegna frostskemmda á vatnsrörum. Þá hafi flestir skólar á þeim slóðum verið lokaðir vegna veðurs í gær.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Flóttafólk í vanda vegna kulda í Suðaustur-Evrópu
Guðsteinn Bjarnason skrifar
