Innlent

Þetta mun styrkja tenginguna á milli Íslands og Grænlands

Kristján Már Unnarsson skrifar
Forsvarsmenn Íslendingafélagsins í Nuuk telja að mál Birnu Brjánsdóttur verði til að styrkja tengslin milli Íslendinga og Grænlendinga. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. 

Hið árlega þorrablót Íslendingafélagsins í Nuuk fór fram í gærkvöldi en þar voru milli 30 og 40 manns. Þær Þorgerður Elín Brynjólfsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri í Nuuk, til vinstri á myndinni, og Eva Björk Jónsdóttir, ráðstefnustjóri á Hótel Hans Egede í Nuuk, hægramegin á myndinni, höfðu veg og vanda af þorrablótinu í ár en þær hafa báðar búið í Nuuk í rúm tvö ár, ásamt eiginmönnum sínum.

Þær voru spurðar hvernig væri að vera Íslendingur í Nuuk:

„Það er frábært. Þeir taka okkur svo vel. Þetta er bara svo friðsælt samfélag og afslappað. Ekkert stress. Og það er ekkert langt í hlutina,” svarar Eva Björk. 

Spurðar um hvaða áhrif mál Birnu Brjánsdóttur og grænlensku sjómannanna hefði svaraði Þorgerður að hún fyndi það á sínum samstarfsfélögum í leikskólanum að þær væru mjög leiðar yfir því, ef gerendurnir reynist vera grænlenskir. 

„Það snertir mjög samfélagið og þeim finnst það alveg skelfileg tenging, ef þetta á að kallast tenging, milli landanna, - þá eru þær mjög leiðar yfir því að þetta skuli vera tengingin,” segir Þorgerður. 

„Þeir eru svo miklar tilfinningaverur, Grænlendingarnir, þeir eru bara rosalega sárir yfir þessu. Ég er samt alveg fullviss um það, þótt það hljómi kannski asnalega, að þetta mun styrkja á einhvern hátt tenginguna á milli Íslands og Grænlands,” sagði Eva Björk.


Tengdar fréttir

Grænlendingar miður sín

Lögreglan segir fólk hafa haft samband sem hafi orðið fyrir aðkasti fyrir það eitt að vera frá Grænlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×