Enski boltinn

Mane gæti náð leiknum gegn Chelsea

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Liverpool veitti ekki af því að hafa Mane gegn toppliði Chelsea.
Liverpool veitti ekki af því að hafa Mane gegn toppliði Chelsea. Vísir/getty
Sadio Mane, leikmaður Liverpool, gæti náð stórleik liðsins gegn Chelsea á heimavelli á þriðjudaginn eftir að Senegal féll úr leik í Afríkukeppninni eftir vítaspyrnukeppni gegn Kamerún í gær.

Mane sem gekk til liðs við Liverpool síðasta sumar frá Southampton hefur verið frábær á fyrsta tímabili sínu í herbúðum Liverpool en hann hefur skorað níu mörk í nítján leikjum fyrir Rauða herinn.

Mane var þó skúrkurinn fyrir Senegal í gær en hann klúðraði fimmtu vítaspyrnunni gegn Kamerún eftir að allar níu spyrnurnar þar á undan höfðu ratað í netið. Var það því honum að kenna að Senegal komst ekki í undanúrslitin.

Stuðningsmenn Liverpool taka þessum tíðindum þó eflaust fagnandi en strax eftir leik bárust þess fréttir að Liverpool hefði sent einkaþotu á eftir Mane í von um að hann myndi ná leiknum gegn Chelsea.

Það má svo sannarlega segja að Liverpool hafi saknað Mane en liðið hefur aðeins unnið einn leik gegn Plymouth af sjö í fjarveru hans.

Er Liverpool fallið úr leik í báðum bikarkeppnunum eftir tap gegn Úlfunum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×