Enski boltinn

Coutinho segist ekki horfa til Kínagullsins né spænsku stórveldanna

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Coutinho fagnar hér einu af mörkum sínum í vetur fyrir meiðsli.
Coutinho fagnar hér einu af mörkum sínum í vetur fyrir meiðsli. vísir/getty
Brasilíski miðjumaðurinn Philippe Coutinho sem skrifaði nýlega undir nýjan samning hjá Liverpool segir að þrátt fyrir að blaðamenn orði hann við önnur lið sé hann og verði ánægður áfram í herbúðum Liverpool.

Coutinho varð á dögunum launahæsti leikmaðurinn í herbúðum Liverpool en hann er reglulega orðaður við Barcelona þar sem vinur hans Neymar leikur.

Hafa stjörnur á borð við Ronaldinho kallað eftir því að Börsungar bjóði í Coutinho en Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool, sagði félagið varnarlaust ef Real Madrid eða Barcelona komi kallandi.

Þá eru kínversku félögin alltaf til að greiða háar fjárhæðir fyrir fræga leikmenn frá evrópsku deildunum en Coutinho segist ekki ætla að hlusta á slíkt næstu árin.

„Ég skil hvað það þýðir að spila fyrir Liverpool, ég finn fyrir metnaðinum hjá öllu félaginu og mér fannst rétt að skrifa undir nýjan samning. Markmið mitt er að verða goðsögn hjá félaginu, koma því aftur í fremstu röð og vinna titla,“ sagði Coutinho og var hreinskilinn er hann var spurður út í leikmenn sem halda til Kína:

„Ég hugsa ekki um slíkt, ég hef engan áhuga á þessari stundu. Framtíð mín liggur hér og ég hugsa ekki um neitt annað félag. Í framtíðinni verður Liverpool vonandi í fremstu röð og við keppumst við bestu lið Evrópu á ný.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×