Enski boltinn

Segir að Swansea ætti að reyna að fá John Terry á láni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Terry.
John Terry. Vísir/Getty
Leighton James, fyrrum leikmaður Swansea City, er búinn að finna rétta leikmanninn fyrir Swansea fyrir baráttunni fyrir sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni.

Sigurmark Gylfa Þórs Sigurðssonar á móti Liverpool á Anfield um síðustu helgi kom liðinu upp úr fallsæti en það er langur vegur eftir ennþá.

Maðurinn sem Leighton James vill sjá í liði Gylfa og félaga er fyrrum liðsfélagi Eiðs Smára Guðjohnsen hjá Chelsea.

Leighton James segir í viðtali við BBC að Swansea eigi að reyna að fá hinn 36 ára gamla John Terry á láni frá Chelsea. BBC segir frá.

Terry hefur ekki fengið mörg tækifæri með Chelsea síðan að Antonio Conte tók við á Brúnni og var síðan rekinn útaf í síðasta leik sínum sem var á móti Peterborough United í 3. umferð ensku bikarkeppninnar.

„Að mínu mati er John Terry besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar af þeim sem eru ekki að spila. Hvort að Terry væri til í að koma til liðs eins og Swansea veit ég hinsvegar ekki,“ sagði Leighton James.

Swansea er búið að fá 51 mark á sig á tímabilinu eða meira en öll önnur lið. Liðið þurfti að skora þrjú mörk hjá Liverpool á Anfield til að fá þrjú stig og vann 5-4 sigur á Crystal Palace á dögunum.

„Það besta í stöðunni fyrir Swansea væri að fá miðvörð. Ég hef verið hrifinn af hinum unga Alfie Mawson síðan að hann kom til liðsins en hann þarf á reyndari manni að halda til að leiðbeina sér,“ sagði Leighton James.

Leighton James lék með Swansea frá 1980 til 1983 og skoraði þá 27 mörk í 98 leikjum með liðinu.


Tengdar fréttir

Keown: Sigurðsson er frábær leikmaður

Arsenal-goðsögnin Martin Keown hrósaði Gylfa Þór Sigurðsson í Match of the Day þættinum á BBC og segir Swansea eiga möguleika á að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×