Viðskipti innlent

Svipmynd Markaðarins: Fylgist með boltanum í Sofa Score

Haraldur Guðmundsson skrifar
Benedikt Jóhannesson er þessa dagana að koma sér fyrir í fjármálaráðuneytinu.
Benedikt Jóhannesson er þessa dagana að koma sér fyrir í fjármálaráðuneytinu. Vísir/Ernir
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Viðreisnar, tók við lyklunum að ráðuneyti sínu þann 11. janúar. Ráðherrann verður 63 ára í maí en um 36 ár eru liðin síðan hann lauk doktorsprófi í tölfræði og stærðfræði frá Florida State University.

Benedikt er kvæntur Vigdísi Jónsdóttur, aðstoðarskrifstofustjóra Alþingis, og eiga þau þrjú börn á aldrinum 29 til 39 ára. Hann var þangað til nýverið stjórnarformaður Nýherja, framkvæmdastjóri Útgáfufélagsins Heims og Talnakönnunar sem hann stofnaði árið 1984.

Hvað kom þér mest á óvart í fyrra?

Að kosningum til Alþingis yrði flýtt um hálft ár. Það varð til þess að allt líf mitt raskaðist miklu fyrr en ég hafði áformað. Framboð, kosningabarátta og seta á Alþingi auk þátttöku í stjórnarmyndunarviðræðum höfðu ekki verið á dagskrá minni árið 2016.

Hvaða app notarðu mest?

Kindle í símanum. Áður en ég fékk bílstjóra var leggja.is líka vinsælt. Sofa Score er líka handhægt þegar eitthvað er um að vera í boltanum.

Hvaða land heimsóttir þú síðast og hvers vegna?

Belgíu þar sem ég sótti Evrópuráðstefnu tryggingastærðfræðinga í Brussel síðastliðið vor.

Hvernig heldur þú þér í formi?

Ég syndi nokkrum sinnum í viku, spila körfubolta vikulega og geng á fjöll þegar fer að vora.

Ertu í þínu draumastarfi?

Eiginlega hefur það starf sem ég gegni á hverjum tíma alltaf verið draumastarfið þannig að svarið er já.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×